Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 20. febrúar 2009, kl. 13:57:50 (4099)


136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:57]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar orðræðu sem hér hefur farið fram, síðast milli hv. þm. Birkis J. Jónssonar og hv. þm. Kjartans Ólafssonar, er rétt að koma því að sem virðist hafa farið fram hjá einhverjum, m.a. hv. þm. Birki J. Jónssyni, að fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst því yfir og ekki einu sinni heldur margoft að rétt væri að gera skipulagsbreytingar á yfirstjórn peningamála. Ég hygg að miðað við það sem hv. þm. Birkir Jón sagði þá ætti ekki að vera neinn meiri háttar málefnaágreiningur um það. En það er einmitt með þeim formerkjum og á því sviði sem m.a. hv. þm. Birkir J. Jónsson talaði varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir, um breytingar á lögum um Seðlabankann, og í framsögu sinni lagði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, mikla áherslu á og talaði um að nauðsynlegt væri að endurskipuleggja peningakerfi þjóðarinnar. Hún talaði um að það væri nauðsynlegt að aflétta bankaleynd og að breyta þyrfti lagarammanum um regluverk fjármálafyrirtækja. Allt er þetta satt og rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur en það frumvarp sem hér liggur fyrir fjallar ekki að einu einasta leyti um þau atriði sem hv. formaður viðskiptanefndar gerði að upphafsorðum og að hluta til að meginmáli í upphafi ræðu sinnar. Það víkur ekki að einu eða neinu leyti að þessum þáttum.

Þá talaði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir um að nauðsynlegt væri að tryggja að í Seðlabankanum starfi fagleg yfirstjórn og síðar í ræðu sinni nefndi hún að með frumvarpinu væri lagður grunnur að betri og öflugri seðlabanka sem áfram gæti notið trausts innan lands sem utan. Vegna þessara orða er eðlilegt að spurt sé hvort það sé mat formanns viðskiptanefndar að ekki hafi verið fagleg yfirstjórn í Seðlabankanum til þessa og ef það er skoðun hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að ekki hafi verið fagleg yfirstjórn í Seðlabankanum, hvað var þá að varðandi þá faglegu yfirstjórn? Í hverju voru brestirnir fólgnir?

Ég get ekki betur séð en það hafi verið fagleg yfirstjórn í Seðlabanka Íslands og ég hygg að ekki ætti að vera ágreiningur um það og miðað við það sem þingmaðurinn sagði síðan í framhaldi, að lagður yrði grunnur að betri og öflugri Seðlabanka sem áfram gæti notið trausts innan lands sem erlendis, sem getur þá ekki skilist með öðrum hætti en að Seðlabankinn hafi þá notið trausts. (Forsrh.: Hvaða frumvarp var það?) Ja, það er hægt að fletta því upp svo ekki þurfi að vandræðast með það. Ég hlustaði og skrifaði niður og biðst þá velvirðingar ef það hefur verið en ég gat ekki heyrt annað en svo hafi verið. En alla vega gat ég ekki betur séð en að við hefðum haft faglegt starf í Seðlabankanum. Fólk getur greint á um hvort þar hafi verið teknar réttar eða rangar ákvarðanir og ég hef iðulega, um árabil gagnrýnt peningamálastjórn þjóðarinnar. Ég hef gagnrýnt það með hvaða hætti Seðlabankinn hefur beitt því ákvæði sem kveður á um í 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, því meginmarkmiði Seðlabankans að halda stöðugu verðlagi. Ég hef gagnrýnt mjög hvernig vaxtaákvörðunum hefur verið beitt og ég hef talið að það ynni gegn þeim grundvelli sem bankastjórnin hygðist ná. Það stendur nefnilega í 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands að „meginmarkmið seðlabanka er að stuðla að stöðugu verðlagi.“

Varðandi peningamálastefnuna er það spurning hvort eðlilegt hefði verið þegar flutt er frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands að markmiðssetningin væri tekin til skoðunar. Því ef þetta á áfram að vera meginmarkmið þá vantar ef til vill fleiri vopn í það vopnabúr sem Seðlabankanum er fengið til að geta staðið í því að móta peningamálastefnu ásamt ríkisstjórninni sem geti tryggt með virkari hætti stöðugra verðlag en verið hefur.

Hæstv. viðskiptaráðherra benti réttilega á í ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum dögum á Alþingi að stjórntæki Seðlabankans hefði — ég hef þetta ekki orðrétt eftir — í raun aldrei virkað. Þar hafa komið ýmsir menn að stjórnum, þar hefur stjórnkerfi verið breytt en þetta varð niðurstaða hæstv. viðskiptaráðherra sem hefur sérþekkingu á þeim málum sem hér er fjallað um samkvæmt námsgráðu sinni, að úrræði og aðgerðir Seðlabankans hefðu aldrei virkað. Það hlýtur þá að vera einhver kerfislægur vandi sem við er að glíma en ekki sú yfirstjórn eða hvort einn eða fleiri seðlabankastjórar haldi um málið. Á þeim grunni hefði verið æskilegt að fara í umræður um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands á þeim grunni og á þeim forsendum og á þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir byrjaði ræðu sína á og fjallaði um að nauðsynlegt væri að breyta og ég er henni fullkomlega sammála. Ég er henni algerlega sammála um að það er nauðsynlegt núna að koma á gjörbreyttu umhverfi varðandi fjármálafyrirtækin, m.a. að skoða það að bankaleynd geti ekki verið áfram eins konar skálkaskjól fyrir glæpastarfsemi, að bankaleynd geti ekki verið skálkaskjól fyrir skattsvik, að bankaleynd geti ekki verið skálkaskjól til að fela peninga. Það eru þessi grundvallaratriði vegna þess að bankaleyndin hefur verið túlkuð svo þröngt og með þeim hætti að hún hefur í raun vegið að rótum réttarríkja ekki bara hér á landi heldur í því fjármálakerfi veraldarinnar sem við erum örlítill hluti af. Þetta er því eitt af þeim meginverkefnum sem við er að glíma og að sjálfsögðu komum við ekki að því regluverki með hvaða hætti því er breytt nema þá sem aðili sem getur látið rödd sína hljóma um að það sé grundvallaratriði að breyta þessu regluverki.

Það kemur m.a. fram í umsögn sem viðskiptanefnd barst frá Jóni Sigurðssyni fyrrverandi seðlabankastjóra, fyrrverandi bankastjóra Nordiske investeringsbanken og fyrrverandi viðskiptaráðherra ásamt mörgu öðru, þar fjallar hann um það öryggisnet fjármálastarfseminnar sem hefur verið bundið við þjóðríkin að nauðsynlegt sé að menn geri sér grein fyrir því að um einn samfelldan fjármálamarkað sé að ræða og þess vegna þurfi að móta gerbreytta stefnu hvað það varðar. Það þurfi að koma á samræmdu öryggisneti, sérstaklega þar sem um er að ræða fjármálastarfsemi sem er mjög samstæð eins og á Evrópska efnahagssvæðinu og hann segir, með leyfi forseta:

„Hér er ekki síst um að ræða hvernig taka skuli á fjárhagsvanda sem upp kann að koma hjá útibúi banka í öðru landi en í heimalandi bankans. Til dæmis mætti hugsa sér að sú almenna regla gilti innan Evrópska efnahagssvæðisins að innstæðutryggingar fylgdu jafnan reglum lands þess sem innstæðunni er veitt viðtaka.“

Þá segir hann — ég fer ekki með orðrétt — varðandi peningamálastefnu að hana þurfi að laga betur að þeirri staðreynd að fjármálaþjónustan fari yfir landamærin og ekki bara á evrópska efnahagssvæðinu heldur í raun um allan heim. Þetta er mergurinn málsins og þess vegna hefðis þurft að skoða og grandskoða með hvaða hætti við teljum nauðsynlegt að breyta peningamálastefnunni í samræmi við það og í raun stefnu varðandi og heildarlög um Seðlabanka Íslands sem taki á þeim kerfislæga vanda sem hæstv. viðskiptaráðherra lýsti svo vel í ræðu sinni og ég vitnaði í áðan, þ.e. að aðgerðir Seðlabankans, óháð því hver hefur verið þar bankastjóri eða hvaða bankaráð hefur setið, hafa ekki virkað. En það sem á skortir hér og það sem er útilokað annað en saka ríkisstjórnina um er það að hvorki í þessu frumvarpi né á annan hátt er mótuð stefna í peningamálum og það er ekki mótuð stefna í gjaldmiðilsmálum. Hvað á að gera? Á að halda í krónuna sem lögeyri eða á að breyta til? Og það vill til að fyrir nokkrum dögum voru virkar umræður um það atriði og af þeim umræðum var ljóst að það virtist sem þingmenn væru almennt sammála um að það gengi ekki lengur að halda í krónuna sem lögeyri nema hún næði þá tengingu við fjölþjóðlegan gjaldmiðil.

Það sem við þurfum að hafa í huga og sem fjölmiðlar og ýmsir upphlaupsmenn sem hafa fjallað um vanda þjóðfélagsins hafa látið hjá líða að gera grein fyrir til að hafa eðlilega atvikaröð á því sem gerðist á Íslandi er það að krónan hrundi, gjaldmiðillinn hrundi og það virðist þurfa að rifja það upp stöðugt að það var krónan sem hrundi og hún byrjaði að hrynja og hrundi langt á undan bönkunum. Það sem gerðist var að vegna þess að krónan hrundi þá magnaði það upp fall bankakerfisins og þess efnahagskerfis sem við búum við.

Það kom síðar í ljós hversu illa statt bankakerfið var og það gat enginn gert sér grein fyrir því að það væri jafnmikið af eitruðum útlánum í íslenska bankakerfinu og raun bar vitni þegar upp er staðið og sjálfsagt eru ekki öll kurl komi til grafar hvað það varðar. Þá er spurningin: Hverjum var þar um að kenna? Var þar um að kenna peningamálastefnunni? Svarið er nei. Var þar um að kenna þeim eftirlitsstofnunum eða yfirstjórnunarstofnunum sem ríkið hefur sett á laggirnar, hvort sem heitir fjármálaeftirlit eða Seðlabanki? Svarið er nei. Sökin liggur einfaldlega hjá þeim sem stjórnuðu bönkunum. Að halda öðru fram eða kenna eftirlitsstofnun eða Seðlabanka um er líkt og að kenna slökkviliðsstjóranum í Reykjavík um að brennuvargur gangi laus í Reykjavík og kveiki í húsum. Það má saka slökkviliðið um að hafa ekki haft nægilegan viðbúnað eða koma nægilega snemma á staðinn eða annað í þeim dúr. En það er alltaf sá sem veldur hlutnum sem ber ábyrgðina og það verðum við að hafa í huga. Í þessu frumvarpi er eingöngu verið að taka á ákveðnum stjórnunarlegum þætti Seðlabankans.

Ég skal taka undir það sem menn hafa sagt í þessari umræðu og sem m.a. hv. þm. Birgir Ármannsson minntist á þegar hann mælti fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar að það frumvarp sem lagt var fram upphaflega af hálfu ríkisstjórnarinnar var í sjálfu sér ákaflega illa grundað. Ég vil ekki nota orðið hrákasmíð, ég vil ekki segja það en það nálgaðist að vera varla boðlegt að leggja það fram en ég skal láta hv. formann viðskiptanefndar njóta þess sannmælis að hún hefur unnið mjög ötullega og mjög vel sem formaður viðskiptanefndar og komið að mjög góðum breytingum varðandi frumvarpið sem lýsa sér í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar. Ég vil þakka henni kærlega fyrir það að hafa unnið með þeim hætti að því að gera vont frumvarp mun skaplegra.

Það eru þó nokkur atriði sem þurfa að koma til skoðunar, ég vil taka það fram, en verð að fara dálítið hratt yfir. Ég tel hugmyndafræðina á bak við peningastefnunefnd sem fjallað er um vera líklega til að verða ákveðið flækjustig í starfsemi Seðlabankans og eðlilegra að miða við það kerfi eða svipað kerfi og við höfum í dag hvað það varðar. En það er annað atriði sem ég vil gera að sérstöku umtalsefni.

Við lagasmíð á Alþingi er það grundvallarregla að við erum að búa til lög sem eiga að standast til einhvers tíma. Það geta verið mismunandi hlutir sem valda því og knýja á um að lög eru samin, oft er það vegna aðsteðjandi vanda í þjóðfélaginu og á öðrum tímum vegna þess að menn vilja koma á réttarbótum. Í þessu tilviki er verið að gera réttmætar breytingar hvað það varðar að auka ábyrgð eins seðlabankastjóra sem ég er mjög fylgjandi að verði gert og lagði fram frumvarp um það atriði í október sl. Þar er í meginatriðum fylgt sömu viðmiðunum og í því frumvarpi sem hér liggur fyrir varðandi það að það komi einn seðlabankastjóri og síðan komi sérstakur aðstoðarmaður hans. Frumvarpið hefur tekið þeim breytingum að það hefur nálgast mjög það frumvarp sem ég ásamt hv. þm. Grétari Mar Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni lögðum fram í október. Í frumvarpi okkar er í ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:

„I. Alþingi kýs sjö fulltrúa í bankaráð Seðlabanka Íslands og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu.

II. Forsætisráðherra skipar nýjan seðlabankastjóra og skulu þá bankastjórar Seðlabanka Íslands hætta störfum.“

Sú aðferðafræði sem er í frumvarpi mínu og hv. þingmanna Grétars Mars Jónssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar er eðlileg stjórnsýsla og eðlileg lagasetning frá Alþingi Íslendinga. Það ákvæði sem hér er til bráðabirgða I. og II., þ.e. í því frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er miðað við að eins fljótt og unnt er eftir gildistöku laga þessara að kjósa bankaráð Seðlabanka Íslands ásamt varamönnum en frá saman tíma fellur niður umboð þeirra er þá sitja í bankaráðinu og síðan að fella niður frá og með gildistöku laganna, stöðu seðlabankastjóra og síðan á að skipa seðlabankastjóra til bráðabirgða og svo auglýsa stöðuna. Þessi aðferðafræði er röng. Hún er vond stjórnsýsla og þetta er vond lagasetning. Sú aðferðafræði sem er í frumvarpi mínu og hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Grétars Mars Jónssonar er eðlileg, réttmæt aðferðafræði með það hvernig fara skal að varðandi lagasetningu og breytingar á yfirstjórn varðandi bankaráð og varðandi bankastjóra Seðlabanka. Það er ekki hlutverk Alþingis Íslendinga með lagasetningu að standa fyrir óeðlilegum hlutum eins og t.d. — ég vil segja — að reka einstaklinga eða stuðla að slíku heldur verðum við alltaf að gæta þess að hafa öfluga, góða og vandaða stjórnsýslu. Ég hefði kosið að í staðinn fyrir þau ákvæði til bráðabirgða sem eru í stjórnarfrumvarpinu hefðu verið tekin til bráðabirgða þau ákvæði sem eru í frumvarpi mínu og hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og Grétars Mars Jónssonar. Það hefði verið mjög skaplegt vegna þess að það er í sjálfu sér ekki langur tími sem þarf að líða frá því að frumvarpið er samþykkt þangað til hægt er að ráða nýjan bankastjóra og skipa nýtt bankaráð samkvæmt lögunum miðað við það sem hér um ræðir vegna þess að það eru heimildir fyrir því í lögum að stytta þá fresti sem þarf til að auglýsa stöðu, skila hæfismati o.s.frv.

Þetta er atriði sem mér finnst ámælisvert í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hv. formaður viðskiptanefndar veit vel og gerir sér grein fyrir því og ég gerði henni ítrekað grein fyrir sjónarmiði mínu og ég geri það nú úr ræðustól, að varðandi nefndarálit frá minni hlutanum þá er það nokkuð misvísandi sem kemur þar fram að það er ekki hnykkt á því sem kemur fram á bls. 3 um ákvæði til bráðabirgða. Ég mun koma að því í síðari ræðu minni í dag en í raun eru það þessi atriði sem við teljum sem skrifum undir þetta nefndarálit að þurfi til að koma varðandi breytingu á ákvæðum til bráðabirgða.