Atvinnumál

Mánudaginn 09. mars 2009, kl. 15:34:15 (4874)


136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

atvinnumál.

[15:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir jákvæðar undirtektir gagnvart þeim pakka sem ríkisstjórnin kynnti sl. föstudag. Það er reyndar í takt við fyrra samstarf okkar í ríkisstjórn þar sem hv. þingmaður hafði verulegan áhuga, sérstaklega á þeim málum sem hún drap á áðan.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru u.þ.b. fjögur til fimm frumvörp sem þyrfti að samþykkja til að þessi pakki mundi virka. Hv. þingmaður spyr hvar þau séu á vegi stödd. Ekkert þori ég að fullyrða um það en eitt þessara frumvarpa er a.m.k. á lokastigum afgreiðslu í þinginu. Það varðar virðisaukaskatt og endurgreiðslu á byggingarstað á virðisaukaskatti á störfum iðnaðarmanna sem er hækkuð úr 60% í 100%. Í meðförum þingsins breyttist það þannig að inn í það voru teknar byggingar sveitarfélaga og sumarbústaðir.

Frumvarp sem tengist fjölgun fólks á listamannalaunum held ég að sé líka komið inn í þingið. (Gripið fram í.) Það er atvinnuskapandi, það skapar 33 ný störf og það munar um þau, hv. þingmaður.

Frumvarp sem varðar hækkun á endurgreiðslu vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu á Íslandi var samþykkt í þingflokkum stjórnarinnar á fundi fyrr í dag og var samþykkt á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn.

Það frumvarp sem hv. þingmaður drepur á sem varðar skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja er ógert. Það var tillaga sem ég fékk samþykkta í ríkisstjórninni og gekk út á að sett yrði niður nefnd með stjórnvöldum og forustumönnum m.a. þeirra fyrirtækja sem hún nefndi. Samkvæmt útreikningi þeirra getur það skapað þúsund störf. Tillögurnar byggja á hugmyndum þeirra og miða að því að innri vöxtur þessara fyrirtækja, sem eru alþjóðleg útflutningsfyrirtæki, eins og hv. þingmaður veit, verði á Íslandi. Við getum ekki óskað eftir því að íslensk, alþjóðleg útflutningsfyrirtæki segi upp fólki erlendis til þess að flytja störf hingað en við getum skapað umhverfi sem leiðir til þess að innri vöxturinn og fjölgun starfa verði hér á landi.

Ég vonast til þess (Forseti hringir.) að sú ríkisstjórn sem situr eftir kosningar muni taka þetta (Forseti hringir.) mál upp og leggja það fram á vorþingi.