Atvinnumál

Mánudaginn 09. mars 2009, kl. 15:37:42 (4876)


136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

atvinnumál.

[15:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég gæti komið hingað nokkuð þykkjuþungur út af svari hv. varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hún veit fullvel af hverju þetta mál er ekki lengra komið og af hverju það fór aldrei í gegnum ríkisstjórn í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég ætla ekkert að rifja það upp hér.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þetta mál er komið á rekspöl en það fór ekki á rekspöl fyrr en ný ríkisstjórn tók við. Það vill svo til að í liði núverandi ríkisstjórnar og í liði þeirra sem styðja hana er fólk eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sem hafa sýnt þessu máli skilning og stuðning umfram marga aðra í öðrum flokkum. Það er þess vegna m.a. sem málið er komið á þennan rekspöl.

Hv. þingmaður þarf ekkert að segja við mig um að það sé lítið að finna í þessum pakka, þetta eru ríflega fjögur þúsund ársstörf. Ég hefði vel getað teygt það með skapandi hugsun upp í fimm þúsund störf. En ef menn lesa textann sem ég lagði fram í ríkisstjórn var alltaf tekin lægsta talan af varfærnisástæðum vegna þess að ég vil ekki búa til væntingar sem ég get ekki staðið við.