Réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar

Miðvikudaginn 25. mars 2009, kl. 22:40:26 (6008)


136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að ráð er fyrir því gert að Tryggingastofnun ríkisins sjái um þessar greiðslur og að þeim sé þá háttað með svipuðum hætti og öðrum greiðslum sem þar eru inntar af hendi, þ.e. að menn þurfa auðvitað að sækja um og sækja þann rétt sinn. Ekkert í umfjöllun um málið í nefndinni eða í þeim umsögnum og upplýsingum sem fengust frá félags- og tryggingamálaráðuneyti benda til þess að það sé skilyrði fyrir því að líffæragjöfin fari fram hérlendis. Hér er einvörðungu verið að ræða um að bæta líffæragjafanum sem hingað til hefur ekki fengið slíkar bætur, að bæta vinnutap sem augljóslega verður eða getur orðið vegna þess óhagræðis sem viðkomandi verður fyrir við það að gefa líffæri. Það er í raun og veru tilgangur þessa frumvarps, að leiða það í lög með þessum hætti. Það hvar, á hvaða sjúkrahúsi eða hvernig nákvæmlega sú aðgerð er gerð er ekki innan efnissviðs þessa frumvarps.