Hvalveiðar og hvalaskoðun

Mánudaginn 06. apríl 2009, kl. 10:56:01 (6918)


136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

hvalveiðar og hvalaskoðun.

[10:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú liggja fyrir tillögur Hafrannsóknastofnunar um skiptingu hafsvæða við landið milli hvalveiðiskipa og hvalaskoðunarskipa. Þessar tillögur eru merkilegar í sögunni vegna þess að ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem stjórnvöld beinlínis taka að sér að skipta hafsvæðum milli nýtingarkosta af þessu tagi.

Þessu fylgir nokkur vandi, og tillögum Hafrannsóknastofnunar hefur verið tekið illa, (Gripið fram í.) bæði af hálfu hvalveiðimanna og ekki síður af hálfu hvalaskoðunarfyrirtækjanna. Í bréfi sem ég fékk um daginn segir að það geti eyðilagt alla hvalaskoðun í Reykjavík ef farið verður eftir þessum tillögum og þar á meðal tiltekið að ekki sé hægt að skoða hvali á hefðbundnum skoðunarstöðum við Garðskaga. Aðeins 1/7 af Faxaflóa er ætlaður hvalaskoðunarskipunum í þessari deilingu. Í þessu bréfi segir líka að skýrsla Hafrós sé algjörlega óskiljanleg nema tilgangur hennar sé að útrýma hvalaskoðun með öllu. Þetta er frá forsvarsmanni hvalaskoðunarfyrirtækis í Reykjavík.

Þess vegna er rétt að spyrja á þessu stigi hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem gegnir mjög viðamiklu starfi í öðru ráðuneyti en má ekki af þeim sökum bregðast í þessum efnum, hvers konar vinnubrögð hann ætli sér að ástunda við lokaákvörðun sína um þessa skýrslu, hvaða samráð hann hafi haft við ferðaþjónustuna, hvort ákvörðun hans sé tekin í samráði við ráðherra ferðamála, sem gengur einmitt fram hjá púltinu í þessa mund, og hvert álit hans sé á þeim skoðunum sem fram eru komnar um þessa tillögugerð Hafrannsóknastofnunar og þeirri einkunn sem þessi skýrsla fær í bréfinu til mín.