Hvalveiðar og hvalaskoðun

Mánudaginn 06. apríl 2009, kl. 10:57:49 (6919)


136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

hvalveiðar og hvalaskoðun.

[10:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta var unnið nákvæmlega í samræmi við það sem ég boðaði þegar ég kynnti niðurstöðu mína í þessum hvalveiðimálum í febrúarmánuði, þegar nokkuð langt var liðið á febrúar ef ég man rétt, að þá yrði þessi vinna sett í gang og leitað tillagna frá Hafrannsóknastofnun og fleiri hlutir settir í farveg eins og að endurskoða lög um hvalveiðar, afar gömul lög frá 1949 og fleira í þeim dúr. Í undirbúningi er hagfræðileg úttekt á heildarhagsmunum Íslands í þessu samhengi og ýmis vinna komin í farveg sem ákveðin var og boðuð á þessum tímapunkti á síðari hluta eða undir lok febrúar.

Þetta eru tillögur Hafrannsóknastofnunar. Ég hef enga ákvörðun tekið í málinu. Við ákváðum að fara þá leið að leggja þetta inn á heimasíðuna þannig að allir sæju tillögurnar sem hafa verið unnar. Nú liggja þær fyrir, allir geta gert við þær athugasemdir og eru að gera það. Sýnist sitt hverjum, báðum megin frá. Ég hef enga ákvörðun tekið og mun ekki gera fyrr en eftir páska og verð frekar þögull um það hvað mér sjálfum finnst þangað til sú niðurstaða liggur fyrir. Það eina sem ég get tryggt er að vitaskuld verður farið yfir öll sjónarmið í þessum efnum. Þau liggja í aðalatriðum fyrir, þessir aðilar koma nú sjónarmiðum sínum á framfæri og rökstyðja þau í ljósi tillagnanna eins og þær liggja fyrir. Þetta er opið ferli, gagnsætt ferli. Er það ekki svona sem við viljum hafa stjórnsýsluna, hv. þingmaður, enginn feluleikur, engin leyndarmál? Tillögur ráðgjafarstofnunarinnar liggja fyrir og síðan taka stjórnvöld ákvörðun sína í lokin á ferlinu.

Ég get líka upplýst að frumvarp um hvali, ekki um hvalveiðar heldur frumvarp um hvali, er tilbúið og verður væntanlega meðhöndlað með sama hætti, það verður bara lagt inn á heimasíðu ráðuneytisins þannig að allir geti skoðað það. Það er unnið af nefnd sem lauk starfi sínu fljótt og vel. Síðan geta menn tekist á um það í framhaldinu.