136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[14:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Stundum er dálítið erfitt að átta sig á því hvað felst í orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar og oft ýjar hann frekar að hlutum en segir þá hreint út. Hann ýjaði að því að ekki væri farið að lögum í þessum sal án þess að geta fundið því stað og hann ýjaði líka að því að forseti Íslands ætti jafnvel ekki að fallast á aðgerðirnar sem hér verða lögsettar væntanlega í haust. Svolítið einkennilegt er að hv. þingmaður skuli ekki segja hreint út hvað hann hugsar, þá væri hægt að ræða það en erfitt er að eiga við hann orðastað þegar hreinskilnin er ekki meiri en þetta.

Vegna þess að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað mikið í dag um að vont hafi verið að leita til IMF og mistök verið gerð og komið hefur fram að sumir eru í afar miklu sambandi við stjórnir á Norðurlöndunum og hafa upplýsingar sem virðast eingöngu vera á þeirra borði en eru algerlega framandi ráðherrum ríkisstjórnarinnar — og þegar litið er til þess að aðkoma IMF skiptir meginmáli í því verkefni okkar að kalla eftir hjálp víða um lönd þá langar mig til að spyrja hann hvað hann hefði viljað gera til þess að koma þjóðinni út úr þeim vanda sem hér er. Nú ætla ég ekki að deila um það við hann af hverju vandinn er. Þetta er sú staða sem við blasir og við þurfum að koma okkur upp úr. Mig langar til að vita hvernig hv. þingmaður hugsar sér að gera það án þess að leita til alþjóðasamfélagsins og án þeirrar mikilvægu staðfestingar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið undirstöðum íslensks samfélags.