136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[17:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér fannst eftirtektarvert í ræðu hæstv. utanríkisráðherra var að hún talaði um framtíðarsýn sína. Hún talaði þar miklu meira í takt við kosningastefnu Samfylkingarinnar eins og hún birtist almenningi fyrir síðustu kosningar en þá stefnu Samfylkingarinnar sem við síðan höfum séð í stjórnarsáttmála með Sjálfstæðisflokknum. Eins og hv. þingmaður veit eigum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði margt sameiginlegt í grundvallarhugsjón okkar í pólitík með jafnaðarstefnunni sem Samfylkingin boðar. Það er ekkert leyndarmál. Við hv. þm. Helgi Hjörvar höfum átt samstarf í stjórnmálum um margra ára skeið og verið sammála um mjög marga hluti þótt að sjálfsögðu skilji stundum á milli eins og gengur. En það er hinn félagslegi jöfnuður sem hæstv. utanríkisráðherra talaði um í máli sínu, áherslur á jafnrétti, réttláta tekjuskiptingu í samfélaginu, sem ég tel að hafi átt miklu meiri samhljóm með hefðbundinni vinstri mennsku en með þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir og hefur unnið að allar götur sem hann hefur verið í ríkisstjórn, samfleytt undanfarin 17 ár. Það var það sem ég átti fyrst og fremst við. Mér fannst ég sjá þarna boðskap um að Samfylkingin vildi fara aðra leið en þá sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið við uppbyggingu á íslensku samfélagi. Ég fagna því að sjálfsögðu og vonast til þess að við sem erum róttækir jafnaðarmenn getum átt samleið með Samfylkingunni við uppbyggingu og endurreisn slíks samfélags. Við viljum að sjálfsögðu ekki fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varðað í pólitísku starfi sínu og með pólitískum áherslum sínum (Forseti hringir.) í gegnum tíðina.