136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í umræðunni hefur nokkuð verið vísað í þann ágæta mann og minn gamla skólafélaga, Jens Stoltenberg, og hvað hann hefur sagt í þessu máli. Meðal annars var vísað til fyrirspurnar sem hann fékk á þingi Norðurlandaráðs og svarsins sem hann gaf þar. Ég hef sjálfur hlustað á þær fréttir sem hv. þm. Róbert Marshall vitnaði í og ég hef líka kynnt mér umræður í norska Stórþinginu um málið.

Ég tel óhætt að fullyrða, a.m.k. ef frumtextinn þar sem Jens Stoltenberg talar um þetta mál er skoðaður, að hann segir hvergi að um sé að ræða skilyrði af hálfu Norðmanna. Hann hefur réttilega sagt að það mundi auðvelda aðkomu þeirra að málinu og þannig hjálpaði það til. Hann hefur sagt að það væri ákveðin forsenda en hann hefur ekki sagt, og ég vísa einnig í ummæli utanríkisráðherra Noregs, Jonasar Gahrs Støres, að Íslendingum yrði ekki sagt neitt fyrir verkum í þessu efni. Þeim yrði ekki sagt að þeir yrðu að fara eftir skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það hafa Norðmenn líka sagt.

Einhver orðaði það hér sem svo að einhver orðhengilsháttur væri í gangi í þessu efni. Það kann vel að vera, ég ætla ekki að fullyrða um það. Ég held að mergurinn málsins sé samt sá að Norðmenn hafa ekki, eftir því sem ég fæ best séð og skilið út frá þekkingu minni á samfélagi þeirra og tungumáli, að þeir hafi sett aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem einhverja skilmála eða fyrirframskilyrði af sinni hálfu þó að þeir hafi vissulega sagt þegar leið á málið að það mundi auðvelda aðkomu þeirra og annarra Norðurlanda að vinna eftir einhverju tilteknu „prógrammi“.