GSM-samband

Miðvikudaginn 10. desember 2008, kl. 14:36:19 (2031)


136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

GSM-samband.

135. mál
[14:36]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp með fyrirspurn.

Fyrri spurningin er svohljóðandi: „Mun það ganga eftir, sem ráðherra fullyrti 31. júlí sl., að GSM-samband verði komið um land allt um næstu áramót?“

Svar við þeirri spurningu er eftirfarandi: Á vegum Fjarskiptasjóðs hefur verið í gangi verkefni er lýtur að bættu GSM-sambandi á þjóðvegum og þekktum ferðamannastöðum. Fyrri hluta verkefnisins er lokið en það laut að bættri útbreiðslu á hringveginum. Auk þess var sambandið bætt á fjallvegunum Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjallsvegi, Fagradal og Fjarðarheiði. Sambandið á Barðaströnd var bætt með sendi í Flatey á Breiðafirði. Samtals var sambandið bætt á 450 kílómetra löngum vegarkafla. Þessu verkefni lauk í júní í ár.

Seinni hluti verkefnisins, sem Vodafone bauð lægst í, og var undirritað í janúar, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, lýtur að bættu sambandi á þeim stofnvegum sem voru án GSM-þjónustu að loknum fyrri áfanga verkefnisins. Um er að ræða að bæta sambandið á 860 kílómetra löngum vegarkafla. Af þessum 860 kílómetrum ákvað Vodafone að bæta sambandið á 200 kílómetra vegarkafla á markaðslegum forsendum og án styrkja. Stefnt er að því að klára verkefnið fyrir áramót en þó gætu einstakir vegarkaflar frestast fram yfir áramót ef tíðarfar verður óhagstætt til framkvæmda.

Auk þeirra verkefna sem hér eru upptalin hafa Síminn, Vodafone og Nova staðið fyrir mikilli uppbyggingu að undanförnu á farsímanetum sínum á markaðslegum forsendum. Því má segja að gríðarlegur kraftur hafi færst í uppbyggingu farsímaneta utan þéttbýlis á síðustu tveimur árum og ekki sér fyrir endann á þeirri ánægjulegu uppbyggingu.

Önnur spurningin er svohljóðandi: „Hvar á landinu er ekki GSM-samband núna?“

Á vegum Fjarskiptasjóðs er uppbyggingu lokið á 44 af 60 vegarköflum. Gert er ráð fyrir að uppbyggingu á síðustu fjórum vegarköflum á Vestfjörðum ljúki innan tveggja vikna. Frá því að þetta svar var skrifað er reyndar búið að kveikja á þeim sendum og verða þeir vonandi teknir formlega í notkun í næstu viku.

Á sumum vegarköflum er útbreiðslan 100% en á öðrum vegarköflum eru landfræðileg skilyrði þannig að ekki er hægt að ná fullri útbreiðslu nema með miklum viðbótarkostnaði. Þó er útbreiðslan aldrei minni en 75% af skilgreindum vegarkafla. Að loknum seinni áfanga GSM-verkefnisins er gert ráð fyrir að útbreiðslan nái til yfir 97% stofnvega á Íslandi og sambandsleysi sé eingöngu á stuttum vegarköflum.

Eingöngu hafa verið gerðar úttektir á GSM-sambandi á stofnvegakerfi landsins. Því er ekki hægt að svara spurningunni um hvar á Íslandi ekkert GSM-samband sé núna. Þó má benda á að íslensku farsímafélögin hafa sett gríðarlegan kraft í uppbyggingu á síðustu tveimur árum og byggt upp langdræg GSM-kerfi og þriðju kynslóðar farsímakerfi með mikilli útbreiðslu á miðum og á hálendinu. Sú uppbygging er í fullum gangi og því liggur endanlegur kostnaður vegna útbreiðslunnar ekki fyrir á þessari stundu.