Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 16:11:37 (4481)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er skoðun mín að bæði þjóðkjörnir fulltrúar og ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu eftir fremsta megni að vinna að þjóðarhag og við eigum ekki að dylgja um það hverjir við aðra að það sé ekki tilfellið.

Ég held að það að tönnlast á Evrópusambandinu í þessu sambandi sé bara einhver áróðursleikur því að Norðmenn hafa t.d. verið býsna harðir í afstöðu sinni og eru þó ekki aðilar að Evrópusambandinu. Það sýnir hversu heimskulegur sá málflutningur er.

Það verður líka, þegar við horfum á úrlausn þessara mála, að hafa í huga heildarmyndina hér og þau neyðarlög sem við settum og þær ráðstafanir sem við gripum til til þess að taka eignir gömlu bankanna og gera innstæður Íslendinga að forgangskröfum í þær eignir. Það gerðum við vegna þess að við sögðumst vera að verja ríka almannahagsmuni. Með því að undirgangast þessar skuldbindingar sönnum við það fyrir umheiminum að við erum að gera það, við erum að verja gríðarlega mikla almannahagsmuni á alþjóðlegum vettvangi, ekki aðeins íslenska sérhagsmuni, og að heildarlausnin sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir, (Forseti hringir.) samningaleiðin, sem svo hefur verið kölluð, hljóti þess vegna farsælar málalyktir, ekki bara þetta mál heldur neyðarlögin og allar aðgerðirnar samanlagðar.