138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það kom fram hjá tveimur þingmönnum a.m.k., hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur, að þau væru rugluð í ríminu varðandi afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til Evrópusambandsins. Ég skal reyna að greiða úr þessum skilningsflækjum þeirra. Staðreyndin er sú að innan okkar raða hafa verið mismunandi áherslur hvað þetta snertir. Hluti þingflokksins vildi ekki fara í beinar aðildarviðræður heldur láta fyrst á það reyna hvort þjóðin vildi ganga til slíkrar vinnu. Síðan var annar hluti, og ég var í þeim hópi, sem vildi sækja um aðild. En það sem sameinar okkur, og það er ekkert flókið, er að við leggjum áherslu á lýðræðislega niðurstöðu í málinu. Það er það sem skiptir endanlega máli.

Hitt er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og reyndar líka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur, að þetta er óhemjudýrt og við þurfum að gæta okkar í þessu efni. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns varðandi forgangsröðunina. Staðreyndin er sú að skrifræðisbáknið í Brussel er óseðjandi ófreskja og er búið að búa til ferli sem er gríðarlega tímafrekt og gríðarlega dýrt. Við þurfum að gæta okkar mjög á því að láta ekki leiða okkur út á mjög kostnaðarsamar brautir hvað þetta snertir. Áhyggjur þingmannanna og ábendingar eru því eitthvað sem okkur ber svo sannarlega að taka tillit til.