Stuðningur við atvinnulaus ungmenni

Miðvikudaginn 17. febrúar 2010, kl. 14:04:18 (0)


138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

179. mál
[14:04]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Málefni ungra atvinnulausra eru gríðarlega mikilvægt mál fyrir okkur og hafa verið ofarlega á baugi hjá okkur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu frá því ég kom þangað inn í fyrravor. Við höfum auðvitað séð mikil hættumerki, atvinnuleysi er komið núna upp í 9% í janúar. Hópur langtíma atvinnulausra fer stækkandi, 70% þeirra eru undir þrítugu. Við sjáum líka á atvinnuleysisskrá að af ungum atvinnulausum hafa yfir 70% einungis grunnskólapróf að baki.

Reynsla nágrannaríkja okkar úr kreppum segir okkur að afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru alvarlegastar fyrir ungt fólk og sérstaklega þann hóp sem hefur litla menntun og er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þegar það missir störf eða hefur jafnvel ekki náð að fóta sig á vinnumarkaði. Við erum auðvitað líka að hluta til að fást við þann skort á þjónustu sem hefur einkennt menntakerfið gagnvart fólki sem með einhverjum hætti hefur átt erfitt með að falla inn í þau fyrir fram gefnu form til bóknáms sem hafa verið ráðandi í framhaldsskólakerfinu.

Það sem við höfum gert í framhaldi af þeirri skýrslu sem hv. þingmaður nefndi og var unnin að frumkvæði félags- og tryggingamálaráðuneytsins og menntamálaráðuneytisins í haust, er að hleypa af stokkunum stórfelldu átaki undir yfirskriftinni „Ungt fólk til athafna“ þar sem við ætlum að tryggja yfir 2.000 ný tækifæri fyrir unga atvinnuleitendur til náms, starfa eða annarrar virkni á þessu ári. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir áramót að verja allt að 1,3 milljörðum kr. til þessa verkefnis á árinu 2010 og sú ákvörðun hefur gert okkur kleift að taka myndarlega á í þessum málum og ganga frá mörgum samningum í tengslum við átakið. Við gerum ráð fyrir því að fjármagna þetta með þeim sparnaði sem við reiknum með að verði með minnkandi atvinnuleysi eftir því sem líður á árið.

Til að stikla á stóru í þeim úrræðum sem við höfum lagt upp með, höfum við sett fram þá stefnu að 450 ný námstækifæri verði til í framhaldsskólum, bæði í núverandi námsbrautum og í nýjum námsbrautum til framhaldsskólaprófs. Við höfum 700 ný námstækifæri fyrir atvinnulaust fólk í námi á vegum símenntunarmiðstöðva, aðfaranáms að frumgreinadeildum og lýðskólum, allt að 450 ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni á vegum félagasamtaka sveitarfélaga og annarra, allt að 400 ný sjálfboðaliðastörf og allt að 400 ný pláss á vinnustofum og fjölsmiðjum, ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

Ég vil bara stikla á stóru í árangrinum sem við sjáum nú strax. Við höfum gert samning við Samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Við höfum náð samningum við Rauða krossinn um að veita allt að 180 atvinnuleitendum kost á þátttöku í fjölbreyttum sjálfboðaliðastörfum og erum með á lokastigi samning við Íþróttasamband Íslands um 150 pláss til viðbótar. Vinnumálastofnun mun kosta ráðningu verkefnisstjóra til að annast fræðslu fyrir sjálfboðaliðana og val á verkefnum og ýmsan stuðning. Við gerðum samning við menntamálaráðuneytið í janúar síðastliðnum um heimildir Vinnumálastofnunar til að semja við framhaldsskóla um námsvist fyrir atvinnuleitendur og sérstakar nýjar námsbrautir í því skyni. Fyrstu 40 ungmennin hófu nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti samkvæmt þessum samningi síðastliðinn mánudag og fleiri hópar munu hefja nám á þessum forsendum á næstu vikum, næst í Menntaskólanum í Kópavogi. Við erum að vinna með skólum um allt land að útfærslum í þessu efni.

Alls eru nú þegar, einum og hálfum mánuði eftir að þetta átak hófst, þúsund ungmenni komin í virkniúrræði frá áramótum. Við höfum líka lagt upp að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að fá tilboð um vinnu eða virkniúrræði, við höfum sett unga fólkið í forgang en þetta á að verða meginreglan fyrir alla atvinnuleitendur.

Við leggjum á það höfuðáherslu að mæta fólki með þarfir hvers um sig í huga. Það er gríðarlega mikilvægt, því að það er mjög einstaklingsbundið hvernig úrræði henta hverjum og einum. Sumum hentar að taka þátt í fjölsmiðjum, öðrum að fara í nám og enn öðrum að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Við verðum að nálgast í þessum flóknu verkefnum fólk út frá þörfum hvers og eins. Það er sú megináhersla sem við höfum í starfi okkar núna.