Nauðungarsala

Mánudaginn 22. febrúar 2010, kl. 17:26:45 (0)


138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að að meginefni til sé ég sammála því sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði í andsvari sínu. Þó að komið hafi fram tillögur um úrræði þarf að útfæra þau. Það hefur verið mér mikið áhyggjuefni að heyra hvernig ráðherrar tala, m.a. þeir ráðherrar sem hv. þingmaður nefndi, sem þessum tillögum hefur verið vísað til. Dómstólar eiga að taka á gengistryggðu lánunum og þó að það komi jafnvel niðurstaða frá dómstólum um að ákveðnir lánasamningar séu ólöglegir þýðir það ekki að þeir ætli sér að taka á þessu á heildstæðan máta í framhaldinu.

Ég fagnaði því mjög þegar ég hlustaði á hv. þm. Atla Gíslason í útvarpsviðtali á Bylgjunni þar sem hann talaði fyrir því að ef t.d. liggur fyrir að ákveðin tegund af lánasamningum sé ólögleg verði ekki beðið eftir næsta máli heldur verði reynt að taka á þessu á heildstæðan máta. Ég vísa þá sjálf til tillagna frá talsmanni neytenda þar sem hann talaði um gerðardóm.

Ég held að við séum öll, og það er það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, sammála um að það þurfi að gera meira. Ég held að næsta skrefið sé að þó að þessi þverpólitíska nefnd sé búin að skila af sér setjist fólk enn á ný niður og við vinnum sameiginlega að úrræðum að lausn á vanda heimilanna, þá ekki hvað síst eins sem hv. þingmaður nefndi, þeirra sem eru þá verst stödd með lægstu tekjurnar og þeirra sem hafa kannski minnstar líkur á því að geta unnið sig út úr þessu til framtíðar litið. Ég held að við séum miklu meira sammála en við viljum stundum vera láta í ræðustól.