Skattahækkanir -- atvinnumál -- ESB

Þriðjudaginn 02. mars 2010, kl. 13:34:12 (0)


138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gífurlega mikilvægt núna þegar dregur saman í hagkerfinu að halda uppi háu framkvæmdastigi í samgöngumálum. Þess vegna voru það mjög jákvæðar fréttir sem bárust á dögunum að heildarframlög til samgöngumála á þessu ári væru 11,5 milljarðar kr., sem er meira að meðaltali, borið saman við verga landsframleiðslu, en árið 2007 svo dæmi sé tekið. Þetta er mikið fagnaðarefni og þarna eru mörg mikilvæg þjóðþrifaverkefni undir. Núna fyrir örfáum dögum var fyrsti áfangi að tvöföldun á Suðurlandsvegi, 6,5 kílómetra kafli, sendur í útboð inn á Evrópa efnahagssvæðið. Eftir 50 daga verða þau útboð opnuð og framkvæmdir hefjast í apríl eða maí. Það tókst að afstýra því slysi að málið yrði stoppað í bæjarstjórn Kópavogs út af ágreiningi um mislæg gatnamót við Bláfjallaafleggjarann. Bæjarstjórnin tók mjög skynsamlega ákvörðun þannig að verkið gat farið í útboð. Má nefna mörg önnur stórverkefni eins og endurbætur á Vesturlandsvegi, Héðinsfjarðargöng, göng við Bolungarvík og margt fleira. Þar að auki eru framkvæmdir í Bakkafjöru sem í heildina eru upp á 3,5 milljarða. Þetta er gífurlega hátt framkvæmdastig og mikilvægt að halda því úti þrátt fyrir samdrátt af því að áfallið var mest og meira en annars staðar í mannvirkjagerðinni og þeim geira. Þetta eru störf og framkvæmdir sem skila sér eins og vítamínsprauta inn í hagkerfið og efnahagslífið um allt Ísland um leið og það byggir upp sterka og öfluga innviði út um allt land. Þarna verða miklar umbætur sérstaklega í umferðaröryggismálum þar sem á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi er verið að stíga þau mikilvægu skref að skilja á milli akreina og ná þar fram miklu betri og öruggari samgöngum að öllu leyti.

Ég vildi því beina því til fulltrúa stjórnarandstöðunnar í samgöngunefnd, hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, hvort hann taki ekki undir það að mikilvægt sé að halda uppi háu og öflugu framkvæmdastigi í samgöngumálum þrátt fyrir samdrátt, kannski til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir enn þá meiri og alvarlegri samdrátt.