Atvinnu- og efnahagsmál -- þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave

Miðvikudaginn 03. mars 2010, kl. 13:43:13 (0)


138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það var mikill titringur í þingsalnum í gær eftir harkalega gagnrýni Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á eigin ríkisstjórn og athafnaleysi ríkisstjórnarinnar er snertir atvinnuuppbyggingu í landinu. Það var réttmæt gagnrýni sem kom úr þeirri átt. Að hlusta síðan á hv. þm. Skúla Helgason koma með tölur um að ríkisstjórnin hafi fjölgað störfum um rúmlega 2.000 á síðasta ári — reyndar lofaði hún 4.000 störfum svo við höldum því til haga — held ég að það séu efni til þess að við fáum eitthvert raunverulegt yfirlit yfir þessar tölur sem hv. þingmaður lagði fram.

Ríkisstjórnin hefur nefnilega talað og talað um að hún ætli að gera sitthvað, hún skipar nefndir sem eiga að undirbúa einhverja áætlanagerð. Þetta er allt í einhverju skötulíki. Við krefjumst þess að hjól atvinnulífsins fari af stað á Íslandi í dag. Þetta gengur einfaldlega ekki.

Hefur hv. þm. Skúli Helgason farið yfir fréttatilkynninguna sem ríkisstjórnin sendi frá sér í kjölfar blaðamannafundar fyrir ári? Það var talað um fjölgun starfa í kvikmyndagerð. Hvað gerðu ríkisstjórnarflokkarnir í fjárlagagerð fyrir árið 2009? Jú, framlög til kvikmyndagerðar voru skorin niður. Ég spyr hv. þingmann: Hvað mun þá fækka störfum í kvikmyndagerð samanber þann rökstuðning hans að lækkun á sköttum á þessa atvinnugrein fjölgaði störfum? Ég held því fram, frú forseti, að ríkisstjórnin sé einfaldlega ekki fær um að sinna því hlutverki sem hún var kosin til að sinna, þ.e. að skapa velferðarsamfélag í landinu. Það gerum við ekki með því að horfa á atvinnuleysistölurnar hækka frá mánuði til mánaðar, horfa á ríkisstjórn sem bókstaflega stendur í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Við þurfum ríkisstjórn sem þorir að taka ákvarðanir, þorir að fjölga störfum og auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn hefur því miður kolfallið á því prófi og einhverjir aðrir þurfa að taka við stjórnartaumunum í þessu landi.