Eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 20. apríl 2010, kl. 14:00:41 (0)


138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

eldsumbrotin á Suðurlandi, yfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[14:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þær yfirlýsingar sem ráðherrar, ekki síst fjármálaráðherra, hafa gefið um stuðning við Bjargráðasjóð og eins að nægir fjármunir séu í Viðlagatryggingasjóði til að standa við bakið á fólkinu sem hefur orðið fyrir verulegum áföllum undir Fjöllunum og í Mýrdalnum, á áhrifasvæði Eyjafjallajökuls. Það er á þessum stundum sem þjóðin uppgötvar að hún er ekki stór og stendur ein sem ein þjóðarsál, við höfum gert þetta oft áður, Vestmannaeyjagos, snjóflóð, jarðskjálftar á Suðurlandi, og það er á þessum tímum sem við uppgötvum að við stöndum best og traustust og náum bestum árangri með því að standa saman. Þess vegna er mjög mikilvæg yfirlýsing úr þingsal í dag að við sem hér erum, ríkisstjórn og stjórnmálaflokkar, stöndum einhuga á bak við þær aðgerðir sem staðið er í, að þær gagnist fólkinu og að fólkið sem þarna þarf að búa við þessi áföll finni fyrir því að á bak við það sé staðið og til þess hugsað.

Það eru fjölmargir þættir sem hafa gengið vel. Við höfum komið upp áður og hrósað bæði Almannavörnum, ríkislögreglustjóra, björgunarsveitunum og heimamönnum sem hafa staðið fyrir fumleysi og fagmennsku í öllum sínum störfum. Við það hefur bæst núna að fjölmargar aðrar stofnanir bæði ríkis og sveitarfélaga hafa komið að þessu verki svo eftirtektarvert er hreinlega. Maður fyllist þeirri bjartsýni að hægt sé að endurreisa samfélagið úr þessu efnahagshruni ef við getum nýtt okkur þá fagmennsku og samstöðu sem við náum fram þegar náttúruöflin ráðast gegn okkur og hafa svo sem gert í gegnum aldirnar. Ég tel þetta afar mikilvæga yfirlýsingu og hrósa ríkisstjórninni fyrir að koma fram með hana svona afdráttarlausa.

Eins og komið hefur fram í umræðunni þarf að skapa bjartsýni, von og trú. Auðvitað veit enginn hvernig náttúran ætlar að hafa þetta, hversu langar eða erfiðar þessar hamfarir verða, en við verðum að hafa þá trú að þær endi og þegar það gerist hefjist endurreisnin á þessu svæði eins og öllum öðrum svæðum á landinu sem hafa orðið fyrir áföllum á liðnum árum, áratugum og árhundruðum.

Það er mikilvægt að skipta þessu upp í tvennt, horfa annars vegar inn á við, horfa á sálgæslu, heilsugæslu og öryggismál. Til þess þurfa jafnvel að koma til fleiri hlutir frá ríkisvaldinu eins og fjárstuðningur til ýmissa stofnana, ríkisvalds og sveitarfélaga sem snúa að þessu máli, björgunarsveitanna, sveitarfélaganna á svæðinu sem gætu bæði orðið fyrir verulegu tekjutapi og eins auknum útgjöldum vegna þessa, og eins vísindasamfélagsins. Það er þessi hópur sem hefur sýnt sig að geta stutt vel og rækilega við bakið á fólkinu. Ég hef heyrt það á fólkinu undir Eyjafjöllunum og í Mýrdalnum, á þessu svæði, að það er þakklátt fyrir þá vinnu og þann stuðning sem það finnur að menn leggja á sig.

En það þarf líka að horfa út á við því að við erum að velta fyrir okkur að ferðaþjónustan verði eitt helsta atvinnutækifæri okkar og atvinnugrein í framtíðinni. Það er augljóst að það gæti þurft að koma til þess að ferðaþjónustan yrði styrkt með einhverjum hætti, aukið fjármagn sett til markaðssetningar eða með einhverjum þeim hætti tryggt að ferðaþjónustan sem verður nú fyrir nokkrum áföllum vegna afbókana treysti sér til að halda áfram og sækja fram. Auðvitað munum við komast í gegnum þetta eins og hvað annað.

Það eru líka nokkrir þættir sem ríkisvaldið þyrfti að velta fyrir sér til að liðka fyrir í daglegum störfum sem óhjákvæmilega verða að koma til. Ég treysti því að ríkisvaldið og ríkisstofnanir verði tilbúnar til þess. Ég ítreka að það sem er mikilvægast hér og nú er að þau skilaboð séu afar skýr, og mér heyrist að þau séu það, að allur þingheimur, ríkisstjórn, allir flokkar og þjóðin öll standi á bak við það fólk sem berst við náttúruöflin bæði daga og nætur. Með samstöðunni munum við án efa komast í gegnum þennan skafl eins og svo marga aðra en til þess þarf framsýni, dug og þekkingu og ég hef fulla trú á þeim aðilum sem eru að vinna á þessu sviði í dag.