Staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 14:15:18 (0)


138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:15]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda þessa brýnu umræðu sem hér fer fram um það þögla þrekvirki sem nú er verið að vinna í sveitunum austan Þjórsár. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi í síðustu viku að sækja tvo íbúafundi á Hellu og á Hvolsvelli og verða vitni að því starfi sem þar fer fram. Það er aðdáunarvert að sjá stofnanir samfélagsins bregðast við með jafnskilvirkum og -skjótum hætti. Þarna voru saman komnir ráðherrar dómsmála og heilbrigðis, samgangna og landbúnaðar ásamt forsvarsmönnum helstu stofnana sem koma að því björgunarstarfi sem þarna þarf að fara fram.

Það er greinilegt að í smæðinni liggur styrkur okkar í þessum efnum. Þarna sést hversu gott það er fyrir okkur að vera fámenn þjóð í okkar litla landi. Við getum með þessu snarræði safnað saman þeim sem eiga að koma að slíkum björgunarmálum og brugðist afgerandi við. En betur má ef duga skal og til þess er þessi umræða hér. Það er mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist vel við með þau úrræði sem þarf til að bæta það tjón sem þarna hefur orðið eins vel og hægt er. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja ríkisstjórnina til þess en ég vil að sama skapi segja við þá sem fara að huga að ferðalögum í sumar, við íslenskan almenning, að þarna hefur orðið mikill brestur til að mynda í ferðaþjónustu austan Eyjafjalla, í Vík, á Kirkjubæjarklaustri og víðar og það er full ástæða, sé fyllsta öryggis gætt og búið að opna svæðið, fyrir almenning til að einbeita sér að þessu svæði, fara austur, sjá það starf sem verið er að vinna þarna, heilsa upp á vini og kunningja sem þarna búa (Forseti hringir.) en jafnframt kaupa og nýta sér þá þjónustu sem þar er til staðar.