Utanríkis- og alþjóðamál

Föstudaginn 14. maí 2010, kl. 13:55:17 (0)


138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni styð ég það eindregið að öryggis- og varnarmál verði færð til vegna eðlisbreytinga sem hafa orðið á þessum hugtökum, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Þau verði færð til borgaralegrar stofnunar. Auðvitað væri miklu betra og þægilegra ef það væri til innanríkisráðuneyti og hægt væri að segja: „Förum bara með þetta þangað“. Nú vill það til að svo er ekki og þá gerir maður það sem er næstbest, maður býr sig undir það að innanríkisráðuneyti verði til, útdeilir verkefnum vegna þess að annars er alltaf þessi sama bið. Bið þeirra sem ekki vilja breytingar. Það er alltaf sagt: „Bíðum með …“. Í vetur var sagt: „Bíðum með að taka fyrir persónukjörið“, „bíðum með að taka …“. Við áttum að bíða með aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, nú eigum við að bíða með Varnarmálastofnun. Það er eðli íhaldsmanna að segja alltaf, „bíðum, bíðum, bíðum…“. Ég er ekki íhald. (REÁ: Hvað með loftrýmiseftirlitið?) Síðan var það loftrýmisgæslan. Já, ég er ekki sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að hún sé algjörlega óþörf, það er ljóst. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki verði séð til þess að það fari vel saman í júní og ágúst. Hvenær það er, hv. þingmaður, er ég ekki alveg með á hreinu.