Utanríkis- og alþjóðamál

Föstudaginn 14. maí 2010, kl. 15:00:55 (0)


138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir gagnmerka skýrslu og tæpa á nokkrum atriðum sem lúta að málum tengdum henni. Miðað við þróun heimsmála frá lokum kalda stríðsins er ljóst að tilgangur og tilvist NATO, þess merka bandalags, hefur breyst og er ef til vill orðin að engu miðað við upprunalegar hugmyndir. Ljóst er að NATO hefur hins vegar ekki tekið á þessari tilvistarspurningu af neinni alvöru, enda um ríka hagsmuni að ræða, hvort sem er til að geta viðhaldið ógn við önnur lönd vegna stærðarinnar og hernaðarmáttarins, eða vegna langvarandi samkrulls sem alla tíð hefur viðgengist milli hergagnaiðnaðarins og stjórnmála. Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Dwight Eisenhower, varaði m.a. sterklega við þessu á sínum tíma, þegar Bandaríkin breyttust í viðvarandi herveldi með risaher eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Því er brýnt að endurskoða aðkomu og jafnvel aðild Íslands að NATO, með tilliti til þess að NATO heyr nú stríð í Afganistan, sem er að mínu viti ekki mjög nálægt Atlantshafinu og ekki heldur Evrópu. Engar aðildarþjóðir NATO hafa orðið fyrir árás frá Afganistan. Því verðum við að velta upp spurningunni um hvert framhaldið eigi að vera. Hver á aðild Íslands að vera í NATO, ef einhver? Munu Íslendingar með aðild sinni að NATO taka þátt í styrjöldum hvar sem er og hvenær sem er? Með NATO-aðildinni felst óbeinn stuðningur við allar aðgerðir Atlantshafsbandalagsins, nema Íslendingar beiti þar því neitunarvaldi sem þeir hafa. Það höfum við aldrei gert.

Ég tel sjálfur að aðild Íslands að NATO hafi sennilega verið farsæl ákvörðun, þótt ákvörðunin um hana hafi verið keyrð í gegnum þingið með grímulausu ofbeldi, m.a. hér fyrir utan þinghúsið. En tímarnir breytast. Nú þarf að svara því, frú forseti, hversu langt eigi að teygja sig, nú þegar tilveruréttur NATO er í raun ekki lengur fyrir hendi með sama hætti og hann var. Menn virðast forðast þessa spurningu eins og heitan eldinn. Hæstv. ráðherra talaði um að fram undan væri endurskoðun á utanríkisstefnu Íslands og væri fróðlegt að vita hvað verður í henni um þetta?

Annað atriði sem ég vildi tæpa á er umsóknin um Evrópusambandið og afstaða Hreyfingarinnar í því máli. Það sem við höfum heyrt í dag er hin gamalkunna orðræða þar sem menn karpa, með eða á móti, án þess að vita nákvæmlega hver niðurstaðan verður. Tilgangurinn með aðildarumsókninni var einmitt sá að skera úr um það, og gera þjóðinni kleift að greiða um það atkvæði, hvað aðild að Evrópusambandinu raunverulega þýddi. Það er búið að karpa um það í 10–20 ár hvað það muni hugsanlega þýða, en menn hafa í rauninni ekki hugmynd um það.

Eins og mál réðust síðastliðið vor kom í ljós við umfjöllun í þinginu um Evrópusambandsaðildina að í leynimöppu fjármálaráðherra hjá nefndasviði voru skýr ákvæði um að aðild Íslands að Evrópusambandinu tengdist lausn Icesave-málsins. Þetta voru atriði sem ríkisstjórnin hafði ekki upplýst þingið um. Vegna þessa töldum við þrjú, þingmenn Hreyfingarinnar eða Borgarahreyfingarinnar sem þá hét, að þetta væri tækifæri sem þyrfti að nota til þess að vekja rækilega athygli þingheims og almennings á tengingunni, enda um mjög mikilvægt mál að ræða. Vegur Icesave-málsins hefur síðan verið slíkur að það er augljóst að þetta leynimakk ríkisstjórnarinnar hefur stórskaðað Icesave-málið og orðspor Íslands. Upprunalega vorum við fylgjandi því að aðildarumsóknin færi í gegn, en hún fór í gegn án þess að búið væri að upplýsa þingið eða almenning um alla þætti málsins, og það fannst okkur rangt.

ESB-ferlið, eins og það liggur fyrir núna, finnst mér ekki óskynsamlegt. Ég er sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að menn eigi ekki að bindast alfarið á flokksjálka með skoðanir sínar og það sé einfaldlega heilbrigt lýðræði að innan flokka greini menn á um mikilvæg mál, og hvers kyns mál. Það þarf ekkert endilega að vera full samstaða í öllum stjórnmálaflokkum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Vegferð Evrópusambandsmálsins held ég að sé ekki slæm.

Hæstv. ráðherra minntist í ræðu sinni á glugga sem gæti verið að opnast í Icesave-málinu. Mikilvægi þess að Icesave-málið sé unnið í samvinnu allra flokka á þingi er gríðarlegt. Það má ekki hlaupa upp til handa og fóta út af einhverjum óljósum glugga sem kannski hefur opnast. Nú vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hver þessi gluggi er og af hverju hann hefur opnast og hversu lengi menn verða með opinn gluggann. Kannski fram á haust þegar kólnar eða vetrar? Við skulum nefnilega muna að ef það er eitthvað sem hefur valdið Íslandi tjóni í Icesave-málinu er það asinn á því þegar það hefur farið í gegnum þingið.

Meginvandinn við lausn Icesave-deilunnar á Íslandi hefur verið vanhæfni formanna Samfylkingar og Vinstri grænna til þess að vinna markvisst af heilindum með öllum flokkum á þingi í málinu. Ábyrgðin á því hvernig fór skrifast alfarið á hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra. Það var ekki fyrr en það var unnið í samráði við alla flokka að upphæðin náðist niður, á tveimur dögum held ég, um 80 milljarða. Það er nú ansi gott tímakaup.

Ég vil því nota tækifærið og skora á hæstv. utanríkisráðherra að taka frumkvæðið í Icesave-málinu héðan í frá og leysa hæstv. forsætis- og fjármálaráðherra úr sjálfheldunni sem þau hafa komið sér í. Ég sé fyrir mér þverpólitískan hóp með hæstv. utanríkisráðherra, formönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, fulltrúa Hreyfingarinnar og svo t.d. hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem er hagfræðingur og hefur mjög mikla reynslu af alþjóðastarfi. Að starfinu mættu líka koma ráðuneytisstjórar og færustu sérfræðingar, svo sem Lee Buchheit og fleiri. Þannig væri hægt að ná samstöðu um Icesave-málið á faglegum forsendum, en ekki út frá þessu endalausa pólitíska hjólfarakjaftæði.

Virðulegur forseti. Ég er nýkominn frá Suður-Afríku þar sem ég sat ráðstefnu á vegum OECD um skuldastýringu ríkissjóða Afríkuríkja. Ef einhvers staðar er ævistarfi að sinna er það þar. Þar hitti ég m.a. fulltrúa frá systurflokki Hreyfingarinnar, sem eru mjög stór og öflug samtök í Suður-Afríku. Þar, eins og á öðrum ráðstefnum af líku tagi sem ég sæki stundum, er ég venjulega spurður að því hvaða breytingar sé búið að gera á stjórnkerfi og stjórnsýslu á Íslandi, og um lýðræðisumbætur síðan í hruninu. Því miður verður fátt um svör. Að einu og hálfu ári liðnu frá hruninu er enn fátt um svör. Ekki hefur verið komið fram með neinar gagngerar breytingar á stjórnsýslunni eða stjórnkerfinu eða neinar lýðræðisumbætur. Þau mál sem liggja í þinginu eða í nefndum þess eru meira og minna einhvers konar froða sem er fyrst og fremst sett fram til þess að hæstv. forsætisráðherra geti hakað við 100-mála listann sinn. Innihald þeirra mála er rýrt. Þessu þurfum við að breyta ef við ætlum einhvern tímann að ná aftur orðspori okkar á alþjóðavettvangi. Það er mjög mikilvægt að Ísland geti sagt jákvæða sögu á alþjóðavettvangi. Það er því miður ekki útlit fyrir að forusta ríkisstjórnarinnar geri sér grein fyrir hversu mikilvægt þetta er. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að Alþingi, sem nú situr, geti sinnt þessu mikilvæga atriði.

Því vil ég að lokum hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að beita sér frekar innan ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að þessum mikilvægu málum verði betur sinnt. Gerðar verði gagngerar umbætur á stjórnkerfinu og stjórnsýslunni og lýðræðisumbætur sem skipta máli. Þá geta Íslendingar sem fara utan, hvort sem er á vegum þingsins eða annars, lýst því yfir á alþjóðavettvangi að verið sé að gera þær raunverulegu breytingar sem þarf til þess að koma í veg fyrir að hrunið sem varð hér fyrir hálfu öðru ári endurtaki sig ekki.