Heilbrigðisþjónusta

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 13:03:36 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[13:03]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hver einasti þingmaður hér inni hafi verið að tala um það að út af breyttum aðstæðum, út af efnahagshruninu, þyrftu menn að koma með stefnumótun í heilbrigðismálum. Ég veit ekki alveg af hverju hv. þingmaður leggur það út með öðrum hætti. Ég held að vísu að öllum sé að verða ljóst, og sérstaklega þegar frá líður og menn fara að skoða það, að aðrir flokkar bera svo sannarlega líka ábyrgð þegar kemur að efnahagshruninu. Við skulum bara taka þá umræðu seinna.

Ég ætla ekki neinum þeim sem komið hefur að heilbrigðismálum annað en að líta á landið allt og svo sannarlega lögðu menn upp með það. Það er liðið eitt og hálft ár frá því að efnahagshrunið varð, þetta eru allt bara staðreyndir sem menn þekkja. Við hljótum að vera komin á þann stað, þar á meðal ríkisstjórnin, að ákveða hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður var hér að lýsa. Ef það eru áætlanir um það, af hverju í ósköpunum eru þær ekki kynntar fyrir hv. heilbrigðisnefnd?

Ef menn ætla að fara út í suma þessa hluti sem hv. þingmaður vísaði hér í, sumt getum við sagt að sé sjálfsagt, eins og að skipuleggja þetta í heild sinni og samvinna milli stofnana o.s.frv., en ýmislegt var bara ekki þarna því að það sem hér var nefnt er ekki nóg — ef menn eru komnir með áætlanir, komnir með stefnuna, ætla menn ekki að fara að kynna hana? Það er liðið eitt og hálft ár. Ég skil það þannig, virðulegi forseti, að hv. þingmaður ætli ekki að skoða þetta neitt sérstaklega, þetta stóra mál, ætli ekki að taka það fyrir í nefndinni, það hvernig við ætlum að halda á málum, hver í rauninni stefnan er í heilbrigðismálum. Það er auðvitað hreinskiptið svar.