Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Föstudaginn 03. september 2010, kl. 14:51:55 (0)


138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir mjög góða reifun á þessu máli. Hann velti upp fjölmörgum atriðum sem þarf að ræða en hafa ekki verið rædd og það kemur náttúrlega í ljós að þetta mál er ekkert einfalt. Það er ekkert einfalt að afgreiða mál um fjármál stjórnmálaflokka, þau þurfa mikla skoðun.

Hv. þingmaður nefndi dæmi þar sem menn hafa farið í kringum lögin, skipst á ferðatöskum, beitt alls konar ráðum. Ég var í Bandaríkjunum í u.þ.b. tíu ár og fylgdist mjög vel með stjórnmálum þar og ég veit hvernig þau mál þróuðust þar. Ég veit t.d. að þegar það var sett í lög að nafnlaus framlög til stjórnmálaflokka væru bönnuð þá gáfu menn áfram undir nafni. Sú breyting breytti engu um niðurstöðuna. Til dæmis héldu þeir sem áttu mestu peningana áfram að vinna þannig að það er ekkert endilega eina lausnin eða góð lausn að banna eingöngu nafnlaus framlög. Þetta er stærra mál en svo að það sé hægt að nota eitthvað eitt.

Það sem hv. þingmaður nefndi var t.d. að fyrirtæki fengju lán. Ég leyfi mér að benda á það að Framsóknarflokkurinn skuldar vel á annað hundrað milljónir. Hverjum skuldar hann þá peninga og hvers vegna? Þetta er dæmi sem þarf að velta upp. Á stjórnmálaflokkum að vera heimilt að taka lán? Það hefur ekki verið rætt.

Svo tala menn um að taka málið aftur á dagskrá. Ég leyfi mér að benda á að eitt af þessum gömlu góðu samtryggingarmálum fjórflokksins sem tók ár eða áratug að taka aftur á dagskrá, var þegar formenn flokkanna sammæltust um að veita sér lífeyriskjör yfirstétta sem áður voru óþekkt á Íslandi. Það tók mörg, mörg ár og baráttu að fá það leiðrétt. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál, það er betra að klára það núna en reyna að koma að því aftur (Forseti hringir.) einhvern tíma seinna.