138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessari ágætu tilvitnun sem hv. þingmaður Vigdís Hauksdóttir las upp fyrir okkur sjáum við kristallast þann yfirgang sem framkvæmdarvaldið sýnir þinginu. Nú er ég ekki bara að tala um núverandi ríkisstjórn, ég er að tala um sögu okkar. Þess vegna tökum við sterkt til orða í þingmannanefndinni varðandi þessi atriði. Þrátt fyrir að hv. þm. Pétri Blöndal þyki ekki nóg að gert þá er þetta einfaldlega vinnulag sem við verðum að breyta. Ég tel að eftir því sem ég las rannsóknarskýrsluna betur hafi ég orðið þess fullvissari með hverri blaðsíðunni að þetta væri einn af þeim grundvallarþáttum sem við yrðum að taka á.

Ég einfaldlega hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu með þeim áhugasömu þingmönnum sem blanda sér hér í umræðuna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)