Jöfnun námskostnaðar

Mánudaginn 19. október 2009, kl. 15:17:18 (0)


138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

jöfnun námskostnaðar.

[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, mér finnst mikilvægt að nefndin fari mjög vel yfir þessa tvo liði. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson bendir á er sjóðurinn mjög mikilvægur í að tryggja að allir nemendur eigi aðgang að framhaldsskólanámi. Ég vil samt líka benda á að auðvitað hefur framboð á námi í framhaldsskóla í heimabyggð stóraukist. Ég nefni sem dæmi að nú geta nemendur í Fjallabyggð stundað nám í framhaldsdeild á Ólafsfirði og Siglufirði, og nýta sér það. Nemendur á Þórshöfn stunda framhaldsskólanám í sinni heimabyggð, þ.e. nemendur sem koma úr 10. bekk, þannig að við þurfum að horfa á það í því samhengi að það er æskileg þróun, mundi ég telja, að framboð á framhaldsskólanámi sé sem víðast, a.m.k. fyrir nemendur undir þessum 18 ára mörkum sem við miðum við.

Að öðru leyti get ég tekið undir það með þingmanninum að álag á framhaldsskólakennara er mikið. 96% útskriftarnemenda úr 10. bekk sóttu núna um framhaldsskólavist og það er hæsta hlutfall nokkru sinni þannig að við sjáum fram á að stórfelldar breytingar hafa orðið á þessu kerfi. Það er mikið álag á svona tímum.