Nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála

Föstudaginn 06. nóvember 2009, kl. 14:39:14 (0)


138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er persónulega ekki mótfallinn því að skoða hugmyndir um skattlagningu á tekjum til lífeyrissjóða eða greiðslum til lífeyrissjóða en þegar þessi hugmynd kom upp fyrr í sumar og var rædd þá man ég ekki betur — og ég hygg að ekkert hafi breyst hvað það snertir — en að lífeyrissjóðirnir hafi lagst mjög sterklega gegn þeirri hugmynd og töldu heppilegra og voru á þeim tímapunkti tilbúnir til að koma að fjármögnun stærri verkefna. En eins og ég segi er ég ekki mótfallinn því að skoða þessa hugmynd en að það sé þá gert í samráði við lífeyrissjóðina og þeir séu hafðir með í ráðum og enginn væni þá um hótanir eða annað því um líkt. En eðli málsins samkvæmt þá eru líkur á því að þeir muni ekki hafa eins mikinn áhuga á því að koma að fjárfestingum ef tekjur inn til þeirra eru skertar. Þetta er spurning um með hvaða hætti við nýtum lífeyrissjóðina og með hvaða hætti þeir koma að uppbyggingarstarfinu og það er alveg kapítuli út af fyrir sig. Fyrirspurn mín sneri fyrst og fremst að því hvort lífeyrissjóðirnir og stjórnir þeirra og þeir sem koma að þeim hafi verið hafðir með í ráðum þegar þetta var lagt fram og hvort þeir hafi lýst ánægju sinni með þetta eða hvort þeir hafi almennt verið neikvæðir gagnvart þessu.