Yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 21:18:08 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:18]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá þætti sem hæstv. ráðherra taldi upp enn á ný og vakti athygli á í stefnuyfirlýsingunni, þá er bara grundvallarmunur á þessum þáttum, svo ég ítreki það. Ef eitthvað reynist þarna ómögulegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, þá fara menn ekkert í það. Gott og vel. Ég vona að það verði niðurstaðan. En á meðan hangir þetta ákvæði yfir greininni, þessi ógn og þessi hótun hangir yfir íslenskum sjávarútvegi að allar aflaheimildir verði kallaðar inn bótalaust á 20 árum. Það segir sig sjálft hvaða áhrif það hefur á íslenskan sjávarútveg, það þarf ekkert að ræða það.

Hvað varðar þá könnun sem hæstv. ráðherra nefndi, gleður það mig mjög — ég hafði reyndar heyrt hæstv. ráðherra nefna þetta áður þegar hann var hv. þingmaður — það sem þessi könnun segir auðvitað er að það ágæta fólk sem tók þátt í könnuninni hefur rétt fyrir sér, sjávarútvegurinn er ein meginstoð íslensks efnahagslífs. Einmitt þess vegna, frú forseti, verðum við þingmenn að gæta okkar á því að vera ekki að leika okkur í einhvers konar tilraunastarfsemi, að prófa og skoða og gera hitt og þetta bara af því okkur líður þannig þennan daginn. Með öðrum orðum, menn verða að fara varlega og skynsamlega í gegnum allar breytingar vegna þess að við vitum hvernig þetta var hér á árum áður þegar allt var í kalda koli, þegar við þurftum skattpeninga inn í greinina. Menn geta velt því fyrir sér hvernig það hefði komið út í slíkri skoðanakönnun ef ungt fólk hefði verið spurt þá hvort það teldi að sjávarútvegurinn ætti framtíð fyrir sér þegar allt var á hausnum í greininni, eða hversu margir hefðu áhuga á að starfa í greininni við slíkar aðstæður. Það er nefnilega mikill munur á því að vilja starfa í grein þar sem er eðlilegur hagnaður af starfseminni, þar sem eru vaxtarmöguleikar, þar sem er öryggi og fyrirsjáanleiki. Það er það sem dregur að.

Svo er reyndar hitt líka, frú forseti, sem er rétt að hafa í huga að það eru ekki mörg prósent þjóðarinnar sem vinna í sjávarútvegi yfir höfuð. Það kemur ekkert á óvart þó að 2% af þeim sem tóku þátt í þessari könnun vilji vinna í greininni, það eru kannski á bilinu 5–10% þjóðarinnar sem vinna í sjávarútvegi og sennilega nær 5 en 10, þannig að sú tala þarf ekki að koma hæstv. ráðherra neitt á óvart.