Viðvera ráðherra

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 14:56:50 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

viðvera ráðherra.

[14:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka virðulegum forseta fyrir að ljá máls á því að þessi mál fari aftur inn í nefnd en jafnframt nota tækifærið til að minna á mikilvægi þess að þetta verði ekki aðeins tekið til umræðu í fjárlaganefnd heldur líka efnahags- og skattanefnd og utanríkismálanefnd, þar sem ég á sæti. Margir stjórnarliðar hafa bent á það eða haldið því fram að hér sé fyrst og fremst um milliríkjadeilu að ræða og þar af leiðandi virðist mér augljóst að utanríkismálanefnd eigi að fá að fjalla um málið. Málinu lauk í þeirri nefnd á sínum tíma í algeru ósætti, þ.e. fulltrúar minni hlutans töldu a.m.k. að ekki væri búið að reifa þar nokkur grundvallaratriði svo að nú þegar fyrir liggur til að mynda að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum velta ekki á því frumvarpi sem nú er til umræðu og nægur tími er til stefnu held ég að við ættum að nýta hann til að þær nefndir sem málið varðar fái að fjalla nánar um það.