138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Alþingi Íslendinga er útvörður Íslands og það er á þeim forsendum sem við ræðum Icesave-málið. Það er alveg makalaust að hæstv. fjármálaráðherra skuli kveinka sér undan því að menn hafi rætt þetta mál nokkuð. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, lýsir því í Morgunblaðinu í dag að Icesave-skuldbindingin sé tvöfalt meiri en hagur okkar af sjávarútvegi, sem einhvern tímann þótti skipta Íslendinga máli. En aðalatriðið í þessu er að það er ekkert skipulag á þessu þinghaldi. Menn eru margoft búnir að koma fram með tilboð um að taka þau mál, sem mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra gjarnan vilja ræða, á dagskrá í dag, en í hinu orðinu vill hann ekki fá þau á dagskrá. Það er nauðsynlegt fyrir hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri grænna, og aðra stjórnarliða, að fara nú að snúa sér að því að koma þessum brýnu málum á dagskrá. Ég hefði haldið að það væri nokkur hagur af því fyrir hæstv. fjármálaráðherra að fá fjárlög samþykkt fyrir áramót.