138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Maður verður hálfmeyr. Ég hef enn von í brjósti, annars stæði ég ekki hérna, annars væri ég farin heim, það er alveg á hreinu. Höfuðáherslurnar eiga að vera á því að það sé öryggisnet. Ef það er öryggisnet er ekki eins mikil hætta með stjórnarskrána en auðvitað þarf að taka bæði þessi mál til gagngerrar skoðunar, þau skipta bæði jafnmiklu máli.

Mér finnst það mjög sanngjarnt og mjög ábyrgt af okkur að leggja fram þessa tillögu um öryggisnetið, að leggja fram tillögu um að við greiðum af þessu miðað við getu. Við skulum ekki gleyma því, og ég hefði haldið það að fyrrum félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðu fagnað því, að hægt væri að setja fordæmi fyrir þróunarlöndin, að hægt væri að setja fordæmi um það hvernig unnið er að svona málum á heimsvísu þegar kemur að greiðslugetu þjóða. Margar þjóðir í heiminum eru ekkert annað en þrælar nýlenduherra og þá eru það ekki bara þjóðir heldur líka risafyrirtæki sem munu fá greiðan aðgang að auðlindum okkar, ef við höldum áfram í þessu prógrammi með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig hefur það verið úti um allan heim og það verður ekki neitt öðruvísi hér.

Ég held að við ættum að setja saman einhvers konar plan B, öll saman, samábyrg, allir þingmenn úr öllum flokkum, og vinna saman að einhverri allsherjarlausn fyrir þjóðina af því að þetta gengur ekki lengur svona. Ég er búin að fá upp í kok, eins og þjóðin, af þessu argaþrasi. Það þýðir ekki að maður gefist upp gagnvart Icesave, það er stórt mál og því væri lokið fyrir löngu ef maður hefði fundið fyrir einhverjum vilja til að breyta þessum fyrirvörum. (Forseti hringir.) Mér finnst það ósómi og vansæmd að við eigum ekki að fá að taka þetta hérna inn í þingið og breyta því ef þörf er á.