138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrum sinnum komið hér upp í dag til þess að spyrjast fyrir um hvenær menn ætli að hætta og sömuleiðis hvort orðið verði við tilboði stjórnarandstöðunnar um að setja mikilvægari mál framar í forgangsröðunina. Ég ætla ekki að gera það núna, virðulegi forseti. En þó að ég átti mig alveg á því að hæstv. forseti hafi ekki skýringu á því hver segir hvað í umræðunni held ég að hann eða í það minnsta forsætisnefnd ætti að fara aðeins yfir það hvernig þessi umræða hefur þróast. Það hefur verið kvartað undan því að búið sé að ræða mikið um þetta mál en enn og aftur upplifum við það að upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu koma ekki fram hér, þrátt fyrir að beðið sé um þær, heldur í fjölmiðlum. Okkur er öllum umhugað um stöðu þingsins. Ég vil beina því til forseta að menn fari yfir það hvort ekki sé rétt að umræða um mál eins og þetta sé tekin hér. Við höfum í það minnsta ekki minni upplýsingar hér en ef við fylgjumst með fjölmiðlum. Það er mjög sérkennilegt ef framkvæmdarvaldið getur ekki talað úr þessum stól, bara einhvers staðar annars staðar. (Forseti hringir.)