Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:12:37 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að yfirleitt þarf ekki að veita hæstv. utanríkisráðherra mikla hjálp við að komast í ræðustól. Hann hefur séð um það sjálfur í langan tíma og oft að eigin frumkvæði. Hins vegar er það nú um ákveðna þætti í þessu máli sem mér finnst þögn hæstv. utanríkisráðherra nokkuð sérstök. Til dæmis kom hér í dag mjög afdráttarlaus yfirlýsing frá hæstv. fjármálaráðherra um það að ESB hefði beitt grímulausum hótunum í garð okkar Íslendinga. Nú er hæstv. utanríkisráðherra sá ráðherra sem hefur samskipti við það ágæta bandalag á sínum snærum. Ég taldi víst að hæstv. utanríkisráðherra hefði áhuga á því að koma og skýra nánar það sem fjármálaráðherra er að vísa til, hvort hann hefur upplifað þessar grímulausu hótanir með sama hætti og hæstv. fjármálaráðherra eða hvort hann hefur hugsanlega (Forseti hringir.) upplifað þetta með einhverjum allt öðrum hætti.