Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:53:15 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er nú skemmtilegur maður og fer oft með gamanmál og sýnir hér að hann leyfir sér jafnvel að grínast með jafnháalvarlegt mál og þetta er. Að halda því fram að efnahagslegu fyrirvararnir séu enn til staðar. Það er nú búið að sýna margítrekað fram á að þeir eru allir farnir fyrir bí. En fyndnast af öllu er að halda því fram að einhverjar yfirlýsingar einhverra ráðherra um að það verði komið vel fram við Íslendinga ef allt fer á versta veg, að það veiti okkur tryggingu. Hvernig hefur þetta verið síðasta árið? Hvernig hefur framkoma þessara ríkja, Hollands og Breta, verið gagnvart Íslandi?

Þriðja grínið var endurskoðunarákvæðið. Hvers vegna er það svona fyndið? Vegna þess að það endurskoðunarákvæði virkaði fyrir mörgum mánuðum síðan, samt hefur ekkert verið gert með það. Tilgangslaust að vísu, það felur ekki í sér annað en eitt teboð, en það hefur ekki einu sinni verið reynt að nýta það, þrátt fyrir að það sé búið að virkjast áður en (Forseti hringir.) frá samningunum var gengið af hálfu Alþingis.