Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 23:55:27 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í framhaldi af orðum hv. þm. Róberts Marshalls er rétt að taka undir þetta og hvetja forseta til að hafa samband við alla hv. þingmenn, þá sem ekki eru hér nú þegar, og hvetja þá til að koma til fundar og ræða það mikilvæga mál sem hér er til umræðu. Það er lágmark að hæstv. ráðherrar sitji hér því að það er hæstv. ríkisstjórn sem ber ábyrgð á málinu.

Málið er nú í höndum þingsins en það er að sjálfsögðu ríkisstjórnin sem samdi við erlend ríki og hefur borið það til þingsins. Að sjálfsögðu ætlumst við til þess að hæstv. fjármálaráðherra, alveg sérstaklega, hæstv. forsætisráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar séu hvað mest í umræðunni. Það er alveg sjálfsagt mál.

Ég legg einnig til að forseti fundi með formönnum þingflokka, að menn setjist á rökstóla og ræði það hvernig áfram verður haldið með fundi í kvöld og nótt úr því að það virðist vera einlægur vilji hæstv. forseta að halda fundi áfram. Ég tel það eðlileg vinnubrögð við þær aðstæður sem nú eru.