138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú fer að líða að því að við förum að vinna meira í fjárlagafrumvarpinu og þess vegna langar mig að spyrja hv. þingflokksformann Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, út í yfirlýsingar Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra. Í morgunútvarpinu 30. nóvember, þ.e. síðasta mánudag, var hæstv. félagsmálaráðherra í viðtali og þar var aðallega fjallað um fæðingarorlofið. Hann lýsti því þar að ríkisstjórnin væri á talsverðum villigötum og þingið þyrfti að skoða það mál sérstaklega vel, hafði greinilega orðið undir með sínar hugmyndir. Síðan þróaðist viðtalið út í það að Lára Ómarsdóttir fréttamaður kom með alls konar hugmyndir um hvernig megi spara í fjárlögum. Þá sagði hæstv. félagsmálaráðherra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Já, ég get eiginlega alveg tekið undir þetta með þér, það hefur ekki skort á að ég hafi kallað eftir því að annars staðar í ríkiskerfinu sé skorið niður með sama hætti og við höfum þurft að gera í velferðarkerfinu. Það er auðvitað gríðarlega stór hluti fjárlaga ríkisins sem fellur undir það ráðuneyti sem ég stýri og mér hefur þótt aðhaldsstigið annars staðar einkennast af miklu alvöruleysi, ég verð bara að segja það.“

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki hægt að skilja þessa yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra öðruvísi en sem beina árás á hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon sem deilir út römmunum í fjárlagafrumvarpinu til ráðuneyta. Þarna er hæstv. félagsmálaráðherra að fara beint framan að hæstv. fjármálaráðherra og sakar hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina væntanlega alla um mikið alvöruleysi í aðhaldsstiginu. Ég vil því spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson: Er þetta rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra, einkennist fjárlagafrumvarpið af miklu alvöruleysi í aðhaldsaðgerðunum?