138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Það er ekkert gleðiefni að hækka þurfi skatta. Ég þekki til þessara álitaefna og veit að efnahags- og skattanefnd mun skoða þær ábendingar sem komið hafa frá atvinnulífinu og taka þær til gaumgæfilegrar skoðunar. En ábyrgir stjórnmálamenn reyna að ná endum saman í ríkisrekstri og meginmarkmið þeirra skattbreytinga sem við erum að ráðast í er að ná meiri jöfnuði í skattkerfi okkar því að það er ljóst að sú skattstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn rak til langs tíma gekk ekki upp, hún var ekki sjálfbær. Menn áttuðu sig á því strax árið 2005 í fjármálaráðuneytinu að þeir mundu ekki ná endum saman fyrsta árið eftir ofþensluna, árið 2008. Það þurfti sem sagt ofhitnun í hagkerfinu til að skattapólitík Sjálfstæðisflokksins gengi upp og tekjur og gjöld væru í samræmi. Við þurfum að beygja af þeirri leið og það gerum við í nálgun okkar. Við erum að búa til meiri jöfnuð í skattkerfi okkar og það gerum við t.d. með fjölþrepaskattkerfi en Íslendingar hafa undir stjórn Sjálfstæðisflokksins rekið hægri sinnuðustu skattapólitík (Gripið fram í.) í allri Evrópu. Það er ekkert annað efnað ríki í OECD sem ekki býr við fjölþrepaskattkerfi og í Bandaríkjunum eru menn með sex þrepa skattkerfi þegar kemur að tekjuskatti. (Gripið fram í.) Nú erum við að rétta kúrsinn í skattapólitík okkar frá gjaldþrotaleið Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár.