Áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 21:01:41 (0)


138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

59. mál
[21:01]
Horfa

Frsm. samgn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa frá samgöngunefnd.

Tilgangur frumvarpsins er að efla öryggi og setja reglur um frístundafiskiskip. Lagt er til að frístundafiskiskip verði sérstaklega skilgreind í lögunum auk þess sem gerðar verði ákveðnar kröfur um hæfi þeirra sem stjórna slíkum skipum og að eigandi frístundafiskiskips beri ábyrgð á því að stjórnendur hafi fullnægjandi réttindi á skipið. Loks er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja nánari reglur um frístundafiskiskip í reglugerð.

Umsagnaraðilar sem mættu á fund nefndarinnar voru flestir jákvæðir í garð frumvarpsins og töldu að með ákvæðum þess sé rennt styrkari stoðum undir þessa nýju atvinnugrein. Nefndin vill þó árétta mikilvægi þess að sett séu skýr stærðartakmörk og skýrar reglur um þær kröfur sem gerðar eru til frístundafiskiskipa og stjórnenda þeirra í reglugerð, sbr. 3. efnismgr. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin telur frumvarpið vera mikilvægt skref í rétta átt með lögfestingu hæfnisskilyrða skipstjórnarmanna á frístundafiskiskipum.