Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 14:02:46 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að staðan sé því miður sú að öll gögn séu ekki komin fram í þessu máli og við vitum það einfaldlega að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur óskað eftir ákveðnum gögnum í fjárlaganefnd sem enn er verið að reyna að fá aðgengi að. Ég vonast svo sannarlega til að þau verði komin áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Á hitt ber að líta að þessi ræða sem ég held nú er væntanlega sú síðasta sem ég mun flytja í þessu máli. Ég get þá væntanlega ekki fjallað um þau gögn sem hugsanlega koma til með að birtast okkur seinna í dag eða í fyrramálið og það er alvarlegt mál. En vonandi koma þau gögn til með að upplýsa málið enn frekar.

Eins og ég sagði áðan ber okkur sem hér stöndum, og eins öllum sem hér búa á landinu — við stöndum í þakkarskuld við allt það fólk sem hefur lagt á sig ómælda vinnu úti í samfélaginu við að kynna sér málið og skrifa greinar um það í blöðin til að reyna að upplýsa málið og reyna að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri um hvernig það liggur því að ekki er vanþörf á. Það hafa ekki allir þingmenn, það hefur komið fram, kynnt sér gögn málsins. Þess vegna er ágætt að þeir hafi alla vega aðgang að því að lesa stuttar blaðagreinar í Morgunblaðinu og fleiri virtum blöðum hér á landi til að reyna að kynna sér þetta mál.

Kjarni málsins í grein Magnúsar Inga Erlingssonar er sú spurning hvers vegna einkafyrirtæki sem er á erlendum markaði ætti að geta skuldbundið íslenska skattgreiðendur sérstaklega. Það er stóra spurningin og kjarni málsins. Vissulega deilir enginn um það að innstæðutryggingarsjóðurinn ber ábyrgð en það er engin ríkisábyrgð. Það kemur fram í áliti bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya að hvergi í tilskipuninni frá 1994 um innstæðutryggingar er minnst á að það sé ríkisábyrgð, hvergi nokkurs staðar.