Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:34:30 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir bíð ég eftir upplýsingum um það hvernig menn ætli að haga þinghaldinu í tengslum við þetta mál. Hér voru að detta inn gögn og upplýsingar og svo menn setji það aðeins saman er hér um það að ræða að virt bresk lögmannsstofa segir að þeir hafi verið í sambandi við aðalsamningamann Íslands sem hafi farið fram á það að ákveðnum gögnum væri haldið leyndum fyrir hæstv. utanríkisráðherra og síðan hafi verið kynning fyrir hæstv. utanríkisráðherra og það er tilgreint hvenær. Þetta er hið dularfyllsta mál. Annaðhvort er þessi lögmannsstofa bara að spinna einhverja hluti eða hún hefur setið með einhverjum manni sem telur sig vera utanríkisráðherra. (Gripið fram í: Já.) [Hlátur í þingsal.] Þetta er þannig svo menn bara setji þetta í eitthvert samhengi. (VigH: … þú.) Spaugstofan er bara algert grín miðað við þetta. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég tek undir óskir hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að leyst verði úr þessu máli, (Forseti hringir.) að aðalsamningamaðurinn verði kallaður fyrir fjárlaganefnd og þetta mál upplýst.