Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 11:46:23 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. velferðarráðherra Guðbjarti Hannessyni fyrir tillögu til þingsályktunar um jafnréttismál til fjögurra ára. Jafnréttismál eru mikilvæg. Þau er efnahagslegt atriði vegna þess að ef þjóðfélagið nýtir ekki starfskrafta hvers einstaklings út í hörgul með tilliti til menntunar og annarra þátta og eitthvert ójafnræði er í gangi þannig að óhæfur einstaklingur er ráðinn, tapar þjóðfélagið í heild sinni. Það er að sjálfsögðu réttlætismál að allir einstaklingar eigi sama rétt, sama af hvaða kyni eða ætterni þeir eru o.s.frv.

En það sem maður rekur alltaf augun í er kynbundinn launamunur og jafnvel þó að tekið sé tillit til þátta eins og vinnutíma, menntunar, aldurs og starfsgreina og ábyrgðar o.s.frv. er eftir sem áður kynbundinn launamunur og hann hefur ekki breyst neitt voðalega mikið. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að það er mismunandi vinnutími eftir kynjum? Hvernig stendur á því að það er mismunandi menntun eftir kynjum? Hvernig stendur á því að það eru mismunandi starfsgreinar eftir kynjum? (Gripið fram í.) Hvernig stendur á því að nánast eingöngu karlmenn eru í sjómannastétt? Hvernig stendur á því að það eru nær eingöngu konur í leikskólum? Hafa menn velt því fyrir sér? Það er ekkert í lögum sem segir að það eigi að vera þannig. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa menn velt því fyrir sér?

Síðan vildi ég koma inn á fæðingarorlofið. Það hefur verið rætt hér og það er ágætt, en mér finnst það vera spurning og eitthvað sem menn ættu að velta fyrir sér hvers vegna þarf að setja lög til að þrýsta konum inn í stjórn hlutafélaga? (Gripið fram í.) Eru það fordómar eigenda félaganna sem stundum eru konur? Eru það fordómar kvennanna sjálfra til sjálfra sín um að þær vilji ekki taka þessa ábyrgð? Mér finnst að menn eigi að velta þessum spurningum fyrir sér. Af hverju er það þannig?