Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 14:27:09 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er farin að verða dálítið erfið umræða. Ef konur hafa meiri samfélagslega vitund og velja sér störf út frá því þá erum við að segja að á þessu sviði sé ákveðinn munur á kynjunum. Ég tel svo ekki vera. Ég hef kynnst konum sem eru ekki samfélagslega sinnaðar og öðrum sem eru mjög samfélagslega sinnaðar, jafnt sem körlum.

Það sem mér finnst athyglisvert í spurningu hv. þingmanns var að hann sagði að innan læknastéttarinnar væri mismunur í launum eftir kynjum. Ég set spurningarmerki við það. Hvernig skyldi standa á því? Mér finnst það vera efni fyrir félagsmálanefnd sem fjallar um þetta: Af hverju er fólk með sambærilega menntun með mismunandi laun eftir kyni? Mér finnst þetta vera athyglisvert.

Það kom fram að í hjúkrunarstéttum er það eins. Þetta væri mjög athyglisvert að skoða. Er það vegna þess að einstaklingurinn hefur fordóma gagnvart sjálfum sér eða hafa yfirboðararnir, kven- og karlkyns, fordóma gagnvart konum af því að þær eru konur?