Skipun stjórnlagaráðs

Fimmtudaginn 03. mars 2011, kl. 15:57:47 (0)


139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir því sem fleiri lög koma frá hæstv. ríkisstjórn sannfærist ég meira og meira um það að þessi hugmynd frá hv. þingmanni, um lagaskrifstofu Alþingis, gæti átt rétt á sér. Ég er ekki þar með að segja að ég sé endilega sammála henni en það er of mikið af klúðri sem er að koma í ljós núna, það eru of mörg mál sem við þurfum að fara að ræða aftur. Þessi þingsályktunartillaga er dæmi um það að fela á forseta Alþingis að fara fram hjá ákvörðun Hæstaréttar eða skapa stöðu sem orðið hefði ef Hæstiréttur hefði ekki fellt þennan úrskurð.

Forseti Alþingis, sem er einn af þremur handhöfum ríkisvaldsins, fulltrúi okkar alþingismanna og löggjafarsamkundunnar, á að ráða fólk og búa til aðstæður, skapa umgjörð, eins og Hæstiréttur hefði ekki fellt neinn úrskurð. Ég veit ekki hvernig menn líta á það þegar einn aðili af þessum þremur grípur fram fyrir hendurnar á hinum. Ég veit ekki hvað mundi gerast ef Hæstiréttur mundi fella þann úrskurð að þingmenn ættu að fara heim eða að framkvæmdarvaldið fái engar fjárveitingar. Þessar þrjár stoðir ríkisvaldsins þurfa að gæta sín mjög vel þegar þær grípa hver inn á annars verksvið og það erum við að gera með þessari þingsályktunartillögu ef hún verður samþykkt.