Skipun stjórnlagaráðs

Þriðjudaginn 22. mars 2011, kl. 22:00:50 (0)


139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er tillaga um skipun stjórnlagaráðs sem við ræðum í kvöld og eitthvað eigum við eftir að ræða þetta áfram sýnist mér. Enn þá er töluverður fjöldi á mælendaskrá.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar er vitanlega ekkert nýtt. Um það hefur verið talað lengi og unnið að því áður með öðrum aðferðum, með mismiklum árangri þó af þeirri vinnu. Hér var farið af stað með að kjósa til stjórnlagaþings og sitt sýndist hverjum um það og aðferðirnar sem voru notaðar. Ég persónulega hafði miklar efasemdir um að aðferðin sem þarna var viðhöfð væri rétt og því miður vil ég segja, kom á daginn að hún gekk ekki upp. Þá á ég kannski ekki akkúrat við þau atriði sem Hæstiréttur Íslands úrskurðaði að hefðu verið ólögmæt eða hvernig sem menn vilja túlka það, þetta var úrskurður Hæstaréttar, að kosningin væri í raun ólögmæt.

Eitt af því sem sá er hér stendur óttaðist mjög var að fyrirkomulagið um að kjósa með landið allt undir og viðhafa persónukosningu mundi ekki ganga enda varð það niðurstaðan og kom berlega í ljós. Einnig kom í ljós að hinn venjulegi frambjóðandi, ef má orða það þannig, sem ekki hafði verið tíður gestur á sjónvarpsskjánum, átti eðlilega undir högg að sækja. Ég vil þá meina að ákveðnir aðilar höfðu forgjöf í kosningabaráttunni og það hafi haft einhver áhrif eins og gefur að skilja og úrslitin endurspegluðu það að mínu mati.

Eflaust er þetta allt ágætisfólk sem hlaut þessa kosningu en það breytir því ekki að Hæstiréttur kvað upp þann úrskurð að kosningin væri ólögmæt eða ógild. Það er mér því algerlega óskiljanlegt að reynt sé að fara sem ég vil kalla bakdyramegin og skipa þá fulltrúa sem hlutu kosningu í kosningu sem úrskurðuð var ógild í stjórnlagaráð. Þá skiptir engu máli hvaða persónur þetta eru, þetta eru 25 aðilar sem fengu ekki kjörbréf en samt á að skipa. Ég fæ ekki séð að þetta ágæta fólk hafi þar af leiðandi eitthvað meira til að bera til að sitja þarna fremur en restin af þjóðinni. Það má kannski halda því fram að heppilegra hefði verið að taka hreinlega 25 manna slembiúrtak ef fara ætti þessa leið.

Er þörf á að láta þessa tillögu ná fram að ganga á þeim hraða sem virðist vera á málinu? Ég segi nei. Það er ekkert flýtiverk að endurskoða stjórnarskrána og á ekki að vera keppikefli að ljúka því af sem fyrst. Ég hef sagt í þessum ræðustól að ef fara á þá leið að vera með stjórnlagaþing væri heppilegra að byrja upp á nýtt með nýjum og breyttum reglum. Ég ítreka það hins vegar sem ég hef einnig sagt að ég hef haft miklar efasemdir um að þetta sé rétt leið. Framsóknarflokkurinn ályktaði hins vegar á flokksþingi að í þessa vinnu skyldi farið og efna skyldi til stjórnlagaþings og ég ákvað að styðja það í þingsal þrátt fyrir að ég sjálfur hefði í raun miklar efasemdir um þetta.

Við erum komin að þeim punkti núna að tillaga liggur fyrir um að velja, eins og áður segir, 25 einstaklinga. Hver verður trúverðugleiki tillagna ráðsins, hver verður þyngdin á bak við tillögurnar ef þessi tillaga verður samþykkt með mjög litlum meiri hluta á þinginu? Það voru ekki nema 36% sem tóku þátt í kosningunni þrátt fyrir að mjög hafi verið hvatt til hennar, sérstaklega af forkólfum ríkisstjórnarinnar. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé heppilegra að byrja upp á nýtt eða þeir 63 sem sitja á Alþingi með stuðningi einhvers staðar í kringum 90% þjóðarinnar á bak við sig fari í þessa vinnu.

Mér finnst ekki sanngjarnt að halda því fram að Alþingi sé ófært um að fara yfir stjórnarskrána og gera á henni breytingar. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni náðist samkomulag um eina veigamestu breytinguna í endurskoðunarnefnd um sjávarútvegskerfi þannig að ég vil meina að það sé komin reynsla á að andrúmsloftið sé breytt. Í sjálfu sér er eðlilegt og hefði endurspeglast á stjórnlagaþingi og mun endurspeglast í stjórnlagaráði ef það verður samþykkt, að menn verða ekki sammála um allt, ég hef enga trú á því. Er þá ekki eðlilegt að Alþingi fjalli um málið og geri í það minnsta tilraun til að ná samkomulagi? Eins og ég segi er ekkert sem hastar að breyta stjórnarskránni.

Misskilningur virðist vera uppi um að bankahrunið eða afleiðingar þess séu stjórnarskránni að einhverju leyti að kenna. Ég kaupi ekki þau rök og hef ekki í rauninni heyrt nokkurn reyna að halda því í alvöru fram. Í stjórnarskránni eru þættir sem vert er að endurskoða sem lúta að stjórnvöldum, þinginu, ráðherrum, forseta, og það eru að sjálfsögðu náttúruauðlindirnar, skipun dómara og ýmislegt sem er full þörf að endurskoða. En mikilsvert er að það sé gert í sem mestri sátt og að þeir sem fjalli um málið hafi sem mest bakland. Þar af leiðandi tel ég mjög óheppilegt að fara með skipun stjórnlagaráðs í gegnum þingið í miklu ósætti því við vitum að mjög stór hluti þingmanna mun þá telja sig algerlega óbundinn því sem kemur frá ráðinu. Eg hefði haldið að betra væri að fara sér hægt og ná einhvers konar breiðri sátt um hvert eigi að fara.

Mér finnst líka mjög alvarlegt að lítið skuli vera gert úr dómi Hæstaréttar og ég veit að sumir félagar mínir í Framsóknarflokknum eru ekki sammála því. Um þetta eru skiptar skoðanir sem er ekkert óeðlilegt. En ég tel hins vegar að það sé algerlega ófært að hafa þennan úrskurð að engu eða dóm eða hvað menn kalla það, kosningarnar voru úrskurðaðar ógildar.

Annað þessu tengt er að við verðum að læra af sögunni. Við verðum að læra að vanda til verka. Eitt af því sem er gagnrýnt í rannsóknarskýrslunni og kemur fram í þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar er að við þurfum að vanda betur til verka, við verðum að vanda það sem við gerum. Mér finnst við ekki gera það, frú forseti, með tillögunni sem hér er lögð fram, það er mín skoðun.

Síðan hefur það gerst eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn að komið hafa upp vísbendingar um ýmislegt annað sem betur hefði mátt fara í undirbúningi kosninganna og í kosningunum sjálfum. Það er kannski erfitt, frú forseti, að hafa eftir tveggja manna tal en einn kjörnefndarmaður sagði mér t.d. að úr einum kjörkassa hefði botninn farið og kjörseðlar dreifst út um öll gólf. Þá veltir maður fyrir sér hvort allir seðlarnir hafi náðst eða hvort einhverjir fóru kannski undir eitthvað. Það kann ekki að hafa skipt neinu máli við úrslitin en þetta sýnir okkur að ekki var allt eins og það átti að vera.

Hér er bréf sem var, að því ég best veit, afhent og kynnt í allsherjarnefnd frá einum yfirkjörstjórnarfulltrúa í Reykjavík. Í nokkrum liðum er talið upp það sem hann telur annmarka á kosningunum. Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta talan var „misskráð“ hjá kjósanda og tóku innsláttaraðilar sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu. Þess ber að geta að kerfið bauð upp á öllum tölum yrði breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu sem þeim hugnaðist.“

Síðan er lýsing á því hvernig starfsumhverfið var og slíkt. Mér finnst, frú forseti, það gríðarlega alvarlegt ef þetta er rétt. Mér finnst líka mjög sérstakt ef ekki hefur verið kannað mjög nákvæmlega og kallað eftir fleiri aðilum sem voru á vettvangi þar sem þetta átti sér stað til að staðfesta hvort þetta sé rétt. Ef tækin gátu ekki lesið tölurnar og þær þurfti að túlka eða skrifa, álagið var slíkt að þeir sem tóku að sér þetta erfiða verkefni urðu að giska sjálfir á hvað þarna stæði, þá sjáum við það að sjálfsögðu að orðið „skapandi“ er kannski rétta orðið yfir að lesa í skriftina á kjörseðlinum.

Ég nefndi áðan, frú forseti, að kosningakerfið hefði ekki gengið upp. Það sem ég átti við er að úrslitin voru ekki þverskurður af þjóðinni og landinu því að ég held að allir nema tveir eða þrír sem hlutu kosningu hafi komið af höfuðborgarsvæðinu. Einhverjir hafa haft uppi þau orð að það sé bara landsbyggðinni að kenna að hún skyldi ekki hafa tekið meiri þátt. Það getur vel verið en engu að síður er alveg ljóst að niðurstaðan var mjög afgerandi varðandi þetta. Það getur ekki eingöngu verið um að kenna áhugaleysi þeirra sem búa úti á landi.

Herra forseti. Ég hef ekkert minnst á þau álit eða yfirlýsingar sem komu frá ýmsum lögspekingum landsins og ég tala ekki um orð hæstv. innanríkisráðherra sem er algerlega mótfallinn þessu og talar um fjallabaksleiðir í málinu. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort þessi aðferð beri vott um ný vinnubrögð, að þegar Hæstiréttur kveði upp úrskurð eða dóm sé einfaldlega rétt að breyta lögunum eða fara aðrar leiðir til að komast hjá úrskurðinum. Mér finnst þetta óásættanlegt og minnir mig á fréttir frá ríkjum sem við höfum ekki talið mjög lýðræðisleg hingað til. Ég segi því enn og aftur, frú forseti, að ef halda á því til streitu að nota einhverja svona aðferð við endurskoðun á stjórnarskránni þá sé betra að byrja upp á nýtt, gefa sér tíma í undirbúning og vanda til allra verka.

Hvað ógilti Hæstiréttur, hefur verið spurt, og hvað felst í ógildingunni? Ég er að sjálfsögðu ekki lögspekingur og við höfum heyrt að þingmenn sem hafa rétt til lögmennsku eru ekki sammála um hvað þetta þýðir. En fyrir leikmann þýðir þetta einfaldlega að Hæstiréttur sagði: Það má ekki gera þetta svona. Þetta er ógilt, þetta er bannað. Ég vil taka mark á því. Þar af leiðandi get ég ekki með nokkru móti samþykkt og mun ekki samþykkja að þessi leið verði farin.

Ég hef líka velt því fyrir mér hvort við viljum láta þetta verða eftirmæli okkar varðandi breytingar á stjórnarskránni, að Alþingi hafi kastað til höndunum við þessa vinnu. Ég tel að ekki sé rétt að gera það. Ég held að breytingar á stjórnarskrá þurfi að vinna í sem mestri sátt og með sem breiðustu fylgi á bak við sig, sem mestum stuðningi, því það er mjög óeðlilegt ef stjórnarmeirihluti ásamt vitanlega nokkrum öðrum stuðningsmönnum við svona mál geti á hverjum tíma farið fram með breytingar eða tillögu sem þessa því þetta er jú stjórnarskráin, góðir þingmenn, frú forseti. Þetta er stjórnarskráin sem verið er að tala um. Ef dregin er upp svartasta myndin má sjá fyrir sér að stjórnarmeirihluti með aðrar skoðanir en sá sem nú situr gæti einfaldlega tekið upp á því eftir næstu kosningar að fara aftur þessa hringferð með stjórnlagaráð og allt þetta. Þetta truflar mig líka mjög mikið því ég lít á stjórnarskrána sem þannig plagg að ekki megi kasta til höndunum við gerð hennar eða breytingar á henni.

Fyrir ekki svo löngu síðan, 28. ágúst 2010, var haldið málþing í Skálholti um stjórnarskrá og stjórnlagaþing. Þar var fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Jón Kristjánsson, með erindi. Hann hefur lagt sig mikið fram í vinnu við breytingar á stjórnarskránni og fór m.a. fyrir nefnd þar um. Ég ætla, frú forseti, að leyfa mér að lesa upp örstutt úr lokaorðum Jóns á ráðstefnunni því mér finnst þau segja þó nokkuð margt. Þar segir hann:

„Ég endurtek að endurskoðun stjórnarskrárinnar verður að taka mið af sýn til langs tíma hvernig við viljum sjá þjóðfélagið í framtíðinni.“

Ég vil skjóta því inn í, frú forseti, að Jón Kristjánsson hefur verið og ég held að hann sé talsmaður stjórnlagaþings í rauninni. Hann segir:

„Dægurmál og persónur mega ekki varpa skugga á þá umræðu þótt draga verði lærdóma af atburðum líðandi stundar. Í endurskoðunarvinnunni er áríðandi að jafnvægi ríki. Vonandi verður starfað í þeim anda og það uppnám og andrúmsloft sem ríkir í samfélaginu í kjölfar hrunsins verði ekki til þess að hrapað verði að niðurstöðu.“

Þetta, frú forseti, held ég að séu orð sem við þurfum að hafa í huga. Þrátt fyrir að við séum flest ósátt við hvernig fór á landinu, að bankahrunið skyldi verða með þeim hætti sem það varð og afleiðingar þess og annað, þó svo við búum betur en mörg önnur ríki vegna þess að hér var til öflugt og gott velferðarkerfi sem hafði byggst upp á mörgum árum til að taka við þeim vandamálum sem þessu fylgdi, þá megum við ekki láta glepjast af því að grundvallarstoðir þjóðfélags okkar hafi brostið. Það er alveg klárt ef ég má nota það orð, frú forseti, að móralski þátturinn í samfélaginu brást. Menn gleymdu sér einfaldlega mjög í dansinum kringum gullkálfinn en það var ekki stjórnarskránni að kenna, ekki aldeilis, frú forseti, hún átti ekki þátt í því að mínu viti.

Ég held því að það sé óheppilegt að þessi tillaga nái fram að ganga og vil hvetja þingmenn til að greiða henni ekki atkvæði. Ég vil hins vegar taka fram að ég held að það sé mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána og styð það. Þá vil ég sérstaklega nefna og ítreka sem ég sagði áðan að ég tel að skýra eigi ákvæði um eign á náttúruauðlindum og skoða þurfi skiptingu valdsins, hvort ráðherrar eigi að sitja um leið sem þingmenn og þess háttar. Mér finnst að skera þurfi aðeins þar á milli. Skipun dómara er eitt sem vert er að skoða og fleira. En ekkert af þessu á að gera með einhverjum bægslagangi heldur þarf að vanda til verka. Ég treysti að sjálfsögðu Alþingi til að gera það. Breið samstaða og sátt um eitthvað annað er að sjálfsögðu líka í myndinni en ég get ekki séð að við förum rétta leið með þessari tillögu. Frú forseti, ég ítreka að ég get ekki með nokkru móti stutt það sem hér er lagt fram.