Skipun stjórnlagaráðs

Miðvikudaginn 23. mars 2011, kl. 16:04:39 (0)


139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:04]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála því að verið sé að fara einhverja aðra leið. Það er einfaldlega verið að bæta aðkomu almennings að málinu með mjög víðtækum hætti í aðdraganda þess að Alþingi sjálft breyti stjórnarskránni. Það tel ég til mikilla bóta. Kjör á stjórnlagaþing á sínum tíma var mjög merkilegt skref í lýðræðisátt á Íslandi. Þegar stjórnarskrá er sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, grein fyrir grein, samhangandi greinar eða kaflar, þá hljóta að fylgja leiðbeiningar með slíkri atkvæðagreiðslu um hvað sé hægt að gera og hvað ekki. Það gefur augaleið að það verður ekki hægt að kjósa þannig um stjórnarskrána að henni verði rústað með samhengisleysi. Það getur hins vegar gerst að þjóðin hafni einfaldlega stórum hluta nýrrar stjórnarskrár. Þá verður það einfaldlega þannig. Það er niðurstaða sem menn mega búast við.

Hvað varðar fjölda greina og flókna kosningu vísa ég í framboð þeirra 523 sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og hvernig farið var í gegnum það. Þó að það væri ekki mikið auglýst kusu yfir 80 þús. manns. (Gripið fram í.) Frá því að ég fékk atkvæðisrétt hef ég aldrei haft annað eins hlaðborð að velja úr af færu fólki sem ég treysti til verksins og í þeirri kosningu. Það var stórkostleg upplifun fyrir mig að geta kosið um svo margt hæft fólk á stjórnlagaþing. Mér fannst það mjög gaman. Ég nálgaðist málið með þeim hætti, ekki að það væri ómögulegt heldur að þarna hefði maður loksins tækifæri til að taka þátt í alvörulýðræði. Það er það sem þjóðin á skilið eftir hrun.