Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 01. júní 2011, kl. 23:00:41 (0)


139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þeir ágætu flokkar sem mynda ríkisstjórn í landinu hafi einu sinni náð um það samkomulagi hvernig þeir ætla að ljúka þessu máli, hvað þá að þeir hafi markmið. Ég fór yfir það áðan í ræðu minni að sú grundvallarspurning sem mér finnst að eigi að liggja að baki svo miklum breytingum og svo viðamiklu frumvarpi eigi að vera: Hverju erum við bættari? Henni hefur að mínu mati ekki verið svarað. Enginn hefur sýnt fram á að við séum með þessu að bæta kerfið á nokkurn hátt. Enginn hefur sýnt fram á að við séum að bæta hag fyrirtækjanna, samfélaganna, sjómanna, farmanna eða fiskimanna. Enginn hefur sýnt fram á að nokkur ábati verði af þessum frumvörpum. (Forseti hringir.) Mér finnst þau vera algerlega laus við markmið.