139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hann hafði á orði að það væri að sjálfsögðu horft til sjávarbyggðanna og þess að styrkja þær. Það er mjög mikilvægt að það sé gert en mig langar hins vegar að taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði, það er eins og svo margir hér sem og í þjóðfélaginu líti á bara eina fisktegund, þorskinn. Það er enginn skilningur á öllu hinu, það er alltaf verið að fjalla um hann. (Gripið fram í.) Ég geri kannski fullmikið úr orðum hæstv. ráðherra en þá geri ég þau orð bara að mínum.

Veiðiheimildirnar eru reyndar að stærstum hluta, ef ekki öllum, í sjávarbyggðunum, það er bara staðreynd. Ég tel hins vegar þessa vitlausu ráðgjöf í veiðunum mestu ógnina og það sem hefur verið verst fyrir sjávarbyggðirnar. Ég veit ekki hvað þarf til þess að opna augu okkar. Miðað við þá veiði og þá fiskigengd sem hefur verið á miðunum er mér algjörlega óskiljanlegt að menn skuli ekki vera fyrir löngu búnir að taka þann grundvöll sem er notaður við að mæla stærð stofnanna, sérstaklega þorskstofnsins, og fara yfir hann. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Ég veit ekki hvað þarf til, hvort fiskurinn þurfi að synda upp í ráðuneyti og upp í Hafrannsóknastofnun og stífla þar innganginn til að menn átti sig á því hvað er að gerast. Við erum bara að ala upp fisk fyrir aðrar þjóðir því að fiskurinn syndir á milli og virðir engin (Gripið fram í.) landamæri eða varnarlínur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem hæstv. ráðherra hefur alræðisvald sem snýr að strandveiðunum og öllu sem er útfært í kringum þær, af hverju hann úthluti svona misjafnt á milli svæða. Hæstv. ríkisstjórn hélt sérstaklega ríkisstjórnarfund á Vestfjörðum til að bregðast við fólksflutningum (Forseti hringir.) þaðan, en Vestfirðingar fara mjög illa út úr þessari svæðaskiptingu. Hver er ástæðan fyrir því að ráðherrann gerir þetta svona?