Fjárlög 2011

Þriðjudaginn 05. október 2010, kl. 15:04:32 (0)


139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það liggur fyrir að ekki er gert ráð fyrir stórum frávikum frá þeirri hagvaxtarspá sem Hagstofa Íslands gerði í júlí og það er ágætt að vita það því að ef gert væri ráð fyrir frávikum er ekki ráð nema í tíma sé tekið að ganga til þess verks að búa sig undir allt önnur fjárlög en hér hafa legið fyrir.

Ég vil þó nefna það út af orðaskiptum varðandi niðurskurð starfa og þeirra orða hæstv. ráðherra að hér hafi komið fram að í niðurskurði síðustu tveggja ára og þar með talið þessu fjárlagafrumvarpi væri gengið harðar inn á höfuðborgarsvæðið en víða annars staðar, að það er í sjálfu sér ekki mjög flókin stærðfræði að fjalla aðeins um það að vöxtur opinberra starfa á síðustu árum allmörgum hefur verið einhvers staðar nálægt 18 þúsund. Og ætli það liggi ekki nærri að einhvers staðar á bilinu 90–95% af þeim hafi orðið til á þessu svæði hér og er ekkert óeðlilegt þótt það komi þar niður. En hins vegar hefur verið mikið „tap“ á opinberu störfum á þeim svæðum sem nú verða fyrir niðurskurði.

Það liggur fyrir að í rekstraráætlun og rekstrargjöldum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir því að niðurskurður á launum sé rétt tæpir 5,6 milljarðar sem jafngildir einhvers staðar á bilinu 1.000–1.500 störfum. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort fyrir liggi greining á því innan ráðuneytisins, innan ríkisstjórnar með hvaða hætti þessi niðurskurður kemur niður, hvar hann birtist, og hvort til séu einhverjar aðgerðir, og þá hvernig, til að mæta þeim áhrifum sem af þessu verða.