Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 251. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 282  —  251. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um metanframleiðslu.

Flm.: Arndís Soffía Sigurðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Lilja Mósesdóttir,


Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Björn Valur Gíslason,
Auður Lilja Erlingsdóttir, Skúli Helgason, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Oddný G. Harðardóttir,
Magnús Orri Schram, Unnur Brá Konráðsdóttir, Birkir Jón Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu í landinu og leita eftir samstarfi við sveitarfélög, einstaklinga og lögaðila í því skyni. Jafnframt hafi ríkisstjórnin forgöngu um að marka heildstæða stefnu um nýtingu metans og taki höndum saman við hagsmunaaðila um rannsóknir, fjármögnun og framvindu hagfelldra kosta við metanframleiðslu.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórnin marki stefnu um nýtingu metaneldsneytis sem orkugjafa til stuðnings þeirri stefnumörkun sem Íslendingar hafa undirgengist í alþjóðasamfélaginu, sem er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af jarðefnauppruna og vernda lofthjúp jarðar og setja sér markmið um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þá er lagt til að ríkisstjórnin taki höndum saman við hagsmunaaðila um fjármögnun til aukinnar metanframleiðslu og nýtingar þeirra tækifæra sem eru til metanvinnslu. Virk og markviss aðkoma ríkisins að málaflokknum getur skipt sköpum um aukna framleiðslu á þeirri endurnýjanlegu orkuauðlind sem hér um ræðir og stuðlað að aukinni notkun samgöngutækja og vélbúnaðar í iðnaði sem knúinn er metaneldsneyti.
    Lagt er til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir rannsóknum og fræðslu um metanframleiðslu í samstarfi við þá frumkvöðla sem þegar hafa hafið framleiðslu á metaneldsneyti þannig að sú þekking og reynsla sem þegar hefur áunnist nýtist sem best til að stórauka framleiðsluna í landinu í stórum og smáum framleiðslueiningum. Tillagan beinist að ríkisstjórninni í ljósi þess að aðkomu margra ráðuneyta er þörf til að fylgja markmiðum hennar eftir.
    Aukin metanframleiðsla í landinu leggur grunn að orkuöryggi þjóðarinnar og sjálfbærni. Nýtingarmöguleiki á íslensku metani á þessari öld er augljós og aukin notkun metans fyrirsjáanleg í samgöngum og iðnaði. Framleiðsla í landinu sl. 10 ár hefur verið meiri en sem nemur eftirspurn. Síðastliðið ár hefur eftirspurn þó aukist mikið og ljóst er að núverandi framleiðslugeta verði fullnýtt innan fárra ára. Allt bendir til að á árinu 2011 muni notkun á metanökutækjaeldsneyti aukast en á árinu 2010 jókst hún um 35% frá árinu 2009. Notkun á metanökutækjum hefur stóraukist í heiminum og mikil aukning er þegar hafin á Íslandi.
    Gjaldeyrissparnaður og aukin framleiðsla í landinu er forsenda hagsældar á Íslandi. Minni innflutningur umhverfisspillandi jarðefnaeldsneytis vegna aukinnar framleiðslu í landinu á umhverfisvænu og endurnýjanlegu eldsneyti eru eftirsóknarverð umskipti. Notkun íslensks metans í stað innflutts eldsneytis sparar gjaldeyri, bætir vöruskiptajöfnuð landsmanna og styrkir innlendan iðnað og viðskipti.
    Metaneldsneyti er íslensk framleiðsla og afrakstur íslenskra starfa. Framleiðslan er möguleg víða um land og getur lagt grunn að fjölbreyttri og sjálfbærri atvinnusköpun í öllum byggðum landsins. Metanframleiðsla í sjávarútvegi og landbúnaði er jákvæð viðbót við atvinnugreinarnar og eykur verðmætasköpun þeirra. Eftirspurn eftir „grænni ferðaþjónustu“ eykst í takt við aukna umhverfisvitund almennings um allan heim sem gerir auknar kröfur í þeim efnum með hverju ári. Aukin metanframleiðsla vítt og breitt um landið skapar því dýrmæt tækifæri fyrir þjóðina til að mæta eftirspurn eftir valkosti til umhverfisvænna og öruggra samgangna. Með staðbundinni og sjálfbærri metanframleiðslu á landsbyggðinni fást möguleikar á að ferðast hringveginn á íslensku og endurnýjanlegu eldsneyti.
    Metan er hægt að framleiða úr öllu lífrænu efni á yfirborði jarðar. Framleiðsluaðferðir á metani eru vel þekktar og þróaðar. Á Íslandi liggur beinast við að nýta fyrst allan lífrænan úrgang frá heimilum, landbúnaði, sjávarútvegi, matvælavinnslu og annarri atvinnustarfsemi. Jafnframt er horft til þess að nýta seyru líkt og gert er í Stokkhólmi og ómæld tækifæri liggja í ræktun lífmassa svo að eitthvað sé nefnt. Nýtingarmöguleikar á metaneldsneyti eru fjölmargir hvort sem er á láði eða legi og mikil aukning hefur orðið á heimsvísu í notkun samgöngutækja sem geta nýtt metaneldsneyti.
    Fjölgun ökutækja, sem knúin eru metaneldsneyti að hluta, hefur árið 2010 að mestu leyti orðið með breytingum á bensínbílum sem þegar eru í umferð. Sú atvinnusköpun er sérlega ánægjuleg enda skapar breytingin tækifæri til að viðhafa umhverfisvænstu samgöngur sem völ er á með notkun á núverandi bílaflota landsmanna.
    Með innlendri framleiðslu á endurnýjanlegu og umhverfisvænu eldsneyti sem nýst getur í stað hefðbundins jarðefnaeldsneytis sýna stjórnvöld samfélagslega ábyrgð og hámarka umhverfislegan ávinning af notkun núverandi bílaflota í landinu. Draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda af jarðefnauppruna frá samgöngum með akstri á íslensku metani. Enginn faglegur ágreiningur er um að frá bílhreyfli sem brennir íslensku metani á sér ekki stað losun gróðurhúsalofttegunda af jarðefnauppruna. Aukin notkun á íslensku metani í samgöngum þjóðarinnar samræmist því vel áformum og alþjóðlegum skuldbindingum stjórnvalda í loftslagsmálum sem lúta að því að draga úr hlýnunaráhrifum í lofthjúpi jarðar af mannavöldum.
    Það er hlutverk stjórnvalda að hlúa að þeim tækifærum sem þjóðin á og að vísa veginn. Hér er um að ræða orkugjafa sem getur nýst þjóðinni með margvíslegum hætti. Þótt aðkoma stjórnvalda verði virkari hér eftir en hingað til við þróun frekari metanframleiðslu í landinu er með engu dregið úr möguleikum á aðkomu stjórnvalda að öðrum tæknilausnum sem einnig þykja hagfelldar. Með sama hætti er eðlilegt að stjórnvöld láti sig varða farsæla nýtingu þeirra í samræmi við heildrænan og hlutfallslegan ávinning þjóðarinnar. Flestum ber saman um að á þessari öld verða í boði fjölbreyttir tæknivalkostir til samgangna og að þeir muni henta ríkjum með mismunandi hætti eftir aðstæðum. Öllum ber saman um að við íslenskar aðstæður muni metaneldsneyti reynast einn þeirra kosta sem farsælt sé að nýta í stórauknum mæli miðað við framleiðslugetu þjóðarinnar í dag.
    Á síðustu missirum hefur áhugi á frekari metanvæðingu í samgöngum og iðnaði aukist. Með víðtækum stuðningi þingmanna við að fela ríkisstjórninni að kortleggja kosti og leiðarval við aukna metanframleiðslu í landinu mundi þingið sýna samfélagslega ábyrgð í verki og getu til að bregðast við óskum frá þjóðinni um hagfelld heillaspor sem unnt er að stíga á komandi árum.