Meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga

Þriðjudaginn 21. febrúar 2012, kl. 17:06:20 (5537)


140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur er sérstaklega tiltekið að þjóðaratkvæðagreiðslur megi fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum og þingkosningum. Ég sé því ekkert athugavert við að blanda þessum kosningum saman.

Hins vegar liggur fyrir þinginu tillaga frá mér og fleirum sem snýr að því að landsmenn fái að taka ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum hvort halda eigi áfram með Evrópusambandsaðlögunina eða ekki. Það er þjóðaratkvæðagreiðslan sem við eigum að vera að ræða hér í dag en ekki þessar ófullburða tillögur sem nú liggja fyrir þingmönnum sem allir fræðimenn sem hafa komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru sammála um að séu ófullburða — ég er ekkert að segja að þessar tillögur séu allar ómögulegar en megnið af þeim er ófullburða og stangast hver á við aðra. Það er þjóðaratkvæðagreiðslan sem á að fara fram samhliða forsetakosningum því að nú, eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra hér í dag, er verið að ræða við Evrópusambandið á þann hátt, samkvæmt því sem þingið veit, að málið er komið langtum lengra en svo að það snúist um aðildarviðræður.

Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því yfir að aðalmálið til að ganga í evrusamstarfið væri að við þyrftum að semja um að afnema gjaldeyrishöftin. Heyrðu, bíðið við, þetta er ríkisstjórnin sem ákvað eftir hrun að viðhalda gjaldeyrishöftunum til 2015. Við í stjórnarandstöðunni gátum stytt þann tíma til áramóta 2012/2013 vegna þess að það er ófært að hafa hér krónu í höftum. Það upplýstist hér í dag hvers vegna lögð væri svo mikil áhersla á árið 2015. Það er vegna þess að fyrst eru sett á okkur gjaldeyrishöft og síðan á að fara með málið til Evrópusambandsins og semja við það um að við fáum að taka upp evru til að afnema gjaldeyrishöftin.

Við erum fullfær um að afnema gjaldeyrishöft okkar sjálf. Það hefur fyrir löngu verið bent á það, en því miður (Forseti hringir.) situr seðlabankastjóri í ráðherraliðinu og fylgir því sem ríkisstjórnin skipar honum að gera.