Meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga

Þriðjudaginn 21. febrúar 2012, kl. 18:23:08 (5553)


140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra verður bara að vera pirraður út í sjálfan sig vegna þess að fyrri ræða hans var ein samfelld buna af rangindum í minn garð, samfelld buna, og hann verður að þola að það sé leiðrétt. Ef hann ætlar að pirrast út í einhvern verður hann að pirrast út í sjálfan sig.

Mér var gefið það að sök að lítilsvirða stjórnlagaráðið. Ræða mín snerist einfaldlega um það hver staða ráðsins er, kosið af meiri hluta þingmanna á Alþingi. Fyrsta ráðið, fyrsta nefndin í lýðveldissögunni sem komið er á fót með hreinni meirihlutakosningu á Alþingi. Það hefur aldrei gerst að nefnd eða ráð væri skipað af Alþingi án þess að allir flokkar ættu sína fulltrúa. Það hefur aldrei gerst, aldrei. Finnist mönnum það léttvæg ábending verða menn bara að eiga það við sig, en það segir þá meira um viðkomandi þingmenn og ráðherra en um þann sem á þetta bendir.

Ég er þeirrar skoðunar að þingið hafi ríkum skyldum að gegna við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað kallað eftir þverpólitísku samráði um mikilvægustu þætti þess máls, um alla þá þætti sem hv. þingmaður nefndi og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki ræða. Hæstv. ráðherra veit betur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til að mynda lagt fram sitt eigið frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskránni og bara til að taka af allan vafa og ég hef gert það áður, það er enginn ágreiningur við Sjálfstæðisflokkinn um auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Að sjálfsögðu þarf hins vegar að ræða hvernig það verður útfært. Þessi ræða er ekki til vitnis um annað en að það þjónar hagsmunum stjórnarflokkanna að efna til ágreinings í þessu máli. Þetta sýnir að þeir vilja halda málinu í ágreiningi en síðast (Forseti hringir.) af öllu vilja þeir taka ábyrgð á málinu sem á að fara fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. (Forseti hringir.) Það ætlar enginn að bera ábyrgð á því máli.