140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:04]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að margt hefur breyst í ytri umgjörð Evrópusambandsins í hinum einstöku Evrópuríkjum síðan þessi umsókn var send inn. Við höfum séð hvernig Evrópusambandið hefur með beinum hætti skipt sér af skipan ríkisstjórna og ráðherra í aðildarlöndunum. Ég get nefnt Grikkland og fleiri lönd í þeim efnum. Evrópusambandið hefur fagnað ráðherraskiptum á Íslandi þannig að það grípur með beinum hætti inn í. Menn tala jafnvel um að skipta ríkjum aftur upp í innri og ytri kjarna og ýmislegt fleira sem menn þar hafa velt fyrir sér.

Hin atriðin hafa skýrst. Þeir sem héldu að við gætum sótt um undanþágur frá ýmsum þáttum í landbúnaði og sjávarútvegi sjá nú að það er ekki á borðinu. Þetta lá í augum uppi strax í byrjun en þetta liggur nú skýrar fyrir. Ég tel að þær forsendur sem var lagt upp með á sínum tíma séu bæði breyttar og hafi líka skýrst.

Ég minni á að í nefndarálitinu um þingsályktunartillöguna sem var samþykkt stendur einmitt, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Í skilyrðum Alþingis er skýrt kveðið á um að umboðið er skilyrt og að þar verði að fara að (Forseti hringir.) meginhagsmunum og ef líkur eru til að víkja verði frá þeim beri málinu að fara inn til Alþingis áður en haldið er áfram.